Miðvikudaginn 10. júlí s.l. var haldið vinnuskólaþing í Nýheimum. Þar komu ungmennin saman sem eru í vinnuskólanum en þau voru 38 talsins og með þeim voru flokkstjórar og tómstundafulltrúi. Tilgangur þingsins var að svara einni spurningu sem beint var til ungmennanna en spurningin var: Hvernig er hægt að gera vinnuskólann að draumavinnustað?
Ungmennin unnu í fjórum hópum en þau áttu samt að svara hvert fyrir sig svo við myndum fá sem breiðasta svörun. Mörgum fannst spurningin erfið og voru sátt við vinnuskólann eins og hann er, sem er gleðilegt fyrir okkur. Að lokum fengum við mörg svör sem hægt er að vinna úr fyrir næsta ár. Nokkur svör voru á þessa leið: Hærri laun – betri og fleiri verkfæri – að það verði leyfilegt að fara í Nettó eða sjoppur í pásum – að sleppa því að raka í roki og rigningu – að sveitarfélagið bjóði upp á köku og/eða pizzu á föstudögum – fjölbreyttari verkefni.
Unnið verður úr niðurstöðum til að reyna að bæta umgjörð vinnuskólans fyrir næsta sumar. Ég get samt ekki lofað því að það verði alltaf kökur og pizzur á föstudögum en að sjálfsögðu fengu ungmennin pizzur í lok vinnuskólaþingsins sem umbun fyrir vel unnin störf.
Ég vil þakka ungmennum vinnuskólans sem og flokkstjórum fyrir skemmtilegt og áhugavert þing. Jafnframt vil ég þakka öllum fyrir vel unnin störf í sumar.
Herdís I Waage
Tómstundafulltrúi