Unnin hefur verið skýrsla um veðurfar á Suðurlandi frá árinu 2008 til 2017 af Veðurstofu Íslands fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS).
Skýrslan byggir á mælingum úr 16 sjálfvirkum veðurathugunarstöðvum á Suðurlandi auk upplýsinga frá þremur mönnuðum veðurathugunarstöðvum. Um margt áhugaverðar upplýsingar er að ræða, þar sem gögn þessi hafa ekki verið teknin saman áður fyrir landshlutann og birt með viðlíka hætti. Samantektin gefur innsýn inn í ólíkt veðurfar einstakra svæða innan landshlutans og veðurfar almennt á Suðurlandi síðastliðin 10 ár. Landshlutinn Suðurland eins og hann er skilgreindur í dag nær frá Hellisheiði í vestri að Lóni í austri.
Í útdrætti skýrslunnar um veðurfar á Suðurlandi segir; “Að jafnaði er veður milt á sunnanverðu landinu. Vetur eru mildir við sjávarsíðuna en lengra inni í landi getur orðið talsvert frost í vetrarstillum. Svæðið er það úrkomumesta á landinu, einkum austantil. Lægðir koma að öllu jöfnu inn á landið úr suðri og bera hlýtt og rakt loft norður eftir. Úrkomusamast er áveðurs við há fjöll og mest er úrkoman sunnan í Vatnajökli og Mýrdalsjökli.”
Sérstaða einstakra svæða kemur berlega í ljós í ýmsum tölum skýrslunnar. Helst birtist sérstaðan líklega í úrkomutölum. Einkum sker veðurathugunarstöð í Kvískerjum sig úr í samanburði við önnur svæði. Meðaltals árs úrkoma mældist þar 3500 mm en um 1000 til 1400 mm annars staðar í landshlutanum. Um er að ræða úrkomumesta svæði landsins samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.
Upplýsingar í skýrslunni taka til þátta eins og ríkjandi vindátta, árstíðarsveiflna í hita, vindhraða og úrkomu. Mannaðar veðurathugunarstöðvar gefa síðan að auki upplýsingar um úrkomuáttir og veðurtegundir á takmörkuðu skyggni.
Skýrslan var unnin af Veðurstofu Íslands fyrir SASS og er í reynd aukaafurð verkefnis um greiningu á veðurfarslegum skilyrðum fyrir alþjóðaflugvöll á Suðurlandi, sem er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands á vegum SASS. Næsti áfangi þess verkefnis er að leggja mat á hvaða svæði innan landshlutans uppfylla veðurfarsleg skilyrði fyrir uppbyggingu alþjóðaflugvallar.
Ákveðið var að þessi gögn yrðu tekin saman í skýrslu sem yrði öllum aðgengileg. Skýrsluna má finna á heimasíðu SASS (sass.is) en samantekt fyrir hverja veðurstöð fyrir sig má einnig nálgast á Kortavef Suðurlands (sass.is/kortavefur).
Höfundar skýrslunnar eru Guðrún Nína Petersen, Kristín Björg Ólafsdóttir og Þóranna Pálsdóttir hjá Veðurstofu Íslands. Nánari upplýsingar veitir Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS.
Þórður Freyr Sigurðsson,
Sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS