Vatnajökulsþjóðgarður kominn á heimsminjaskrá UNESCO

0
1300

Vatnajökulsþjóðgarður er kominn á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi heimsminjanefndar UNESCO í Bakú í Aserbaídsjan föstudaginn 5. júlí á grundvelli þess að þjóðgarðurinn hafi að geyma einstakar náttúruminjar. Þar með er staðfest að náttúra þjóðgarðsins og friðlandsins í Lónsöræfum teljist hafa einstakt gildi fyrir mannkynið. Svæðið er einstakt á heimsvísu vegna sköpunarkrafta náttúrunnar, samspils elds og íss og þeirrar jarðfræðilegu fjölbreytni sem af því leiðir og er sýnileg á yfirborði þjóðgarðsins. Landsvæðið sem um ræðir er afar stórt og um 12% Íslands eru þannig komin á heimsminjaskrá UNESCO sem einstakar náttúruminjar. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra undirrita umsóknina við Hoffellsjökul 28. janúar 2018

Tilnefningin sem send var inn í janúar 2018 var samþykkt og með henni varð Vatnajökull hluti af heimsminjaskránni fyrir náttúruverðmæti. Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi eru undanskilin í tilnefningunni að þessu sinni vegna þess að ekki er lokið vinnu við friðlýsingu, en svæðið getur komið inn síðar. Í tilnefningunni er áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu og eldstöðvakerfið í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem einstakt er talið á heimsvísu. Undirbúningur vegna tilnefningar Vatnajökulsþjóðgarðs hófst 2016 en þá var sérstakri verkefnastjórn falið að halda utan um og stýra vinnu við tilnefninguna í samræmi við reglur UNESCO. Verkefnið var unnið í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og samráð haft við sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum. Skráning Vatnajökuls á heimsminjaskrá er mjög mikilvægt skref í verndun og viðurkenningu svæðisins á heimsvísu. Staðir á heimsminjaskrá draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna þannig að mikilvægi viðkomandi staða eykst í þjóðhagslegu tilliti. Heimsminjaskráin er talin vera afar öflugt tæki til minja- og náttúruverndar, ekki síður en til uppbyggingar vandaðrar ferðaþjónustu í hverju landi.