Þátttaka í lambadómum í Austur-Skaftafellssýslu var góð að vanda. Dæmd voru alls 2932 lömb, þar af 541 lambhrútar og 2391 gimbrar, sem er 4,5% fleiri lömb en 2020.
Vænleiki lamba var mjög góður og voru lambhrútar að meðaltali 48,6 kg og með 84,5 heildarstig. Ómvöðvi var að meðaltali 30,9 mm, ómfita 3,1 mm og lögun 4,2. Gimbrarnar voru 42,2 kg að meðaltali, með 29,6 mm bakvöðva, 3,2 mm ómfitu og lögun 4,0.
Alls voru 53 lambhrútar með 86.5 heildarstig og þar af var einn með 89,0 heildarstig, einn með 88,5 og fjórir lambhrútar með 88,0 heildarstig. Þrír efstu lambhrútar sýslunnar eru frá Setbergi. Í þriðja sæti er lambhrúturinn Ómur 21-504 með 88,0 heildarstig, 56,0 fyrir alls2 sem er samanlögð stig fyrir háls/herðar, bringu/útlögur, bak, malir og læri. Hann er undan Lóm 14-504 Salamonssyni 10-906 og móðurfaðir er Gróði 11-958. Í öðru sæti er lambhrútur 7121 með 88,5 heildarstig, 54,5 fyrir alls2 og með 30 mm bakvöðva. Hann er einnig undan Lóm 14-504 og móðurfaðir er Bergur 13-961. Í fyrsta sæti er lambhrúturinn Ábóti 21-014 frá Setbergi með 89,0 heildarstig, 56,0 fyrir alls2 og ómmæling 35 mm ómvöðvi, 4,8 mm ómfita og 4,5 í lögun. Ábóti er undan Ramma 18-834 og móðurfaðir Grímur 14-955.
Ábóti 21-014 frá Setbergi er handhafi Guðjónsskjaldarins haustið 2021.
Stigahæsta gimbrin haustið 2021 er nr. 21-002 frá Fornustekkum með 37,5 stig alls. Hún var 42 kg, 34 mm ómvöðva, 9.5 fyrir frampart og 19,5 fyrir malir/læri. Alls voru 48 gimbrar með 36,0 í heildarstig. Tvær gimbrar náðu 39 mm bakvöðva. 21-102 Títla frá Setbergi undan áðurnefndum Lóm 14-504 og 21-138 frá Nýpugörðum undan Ljóma 17-569 Bjartssyni 15-967. Tveir lambhrútar náðu 40 og 41 mm bakvöðva. Drellir 21-093 frá Viðborðsseli undan Austra 19-847 með 40 mm bakvöðva og þykkasta bakvöðvann, 41 mm, var Strammi 21-505 frá Setbergi undan Ramma 18-834.
Mikið var af góðum hrútsefnum og gimbrum sem dæmd voru í haust í Austur-Skaftafellssýslu og verður spennandi að sjá hvernig þau munu reynast í ræktunarstarfinu á komandi árum.
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins