Fimmtudaginn 20. september standa Vísindafélag Íslendinga og þekkingarsetrið Nýheimar á Höfn sameiginlega að málþingi um ungt fólk og fjölbreytileika. Málþingið verður í Nýheimum og hefst kl. 16. Til umfjöllunar verða ýmsar rannsóknir sem varða ungt fólk á Íslandi og stöðu þess en einnig verður fjallað um félagsvísindalegar rannsóknir sem varða ungt fólk á Hornafirði sérstaklega og stöðu fjölmenningarmála í sveitarfélaginu.
Vísindafélag Íslendinga
Málþingið er annað í röð sex málþinga um vísindi og samfélagslegar áskoranir sem Vísindafélag Íslendinga hefur forgöngu um á árinu í tilefni af aldarafmæli bæði félagsins og fullveldis Íslands. Á fyrsta málþinginu sem haldið var í Reykjavík í apríl voru vísindasaga og veirurannsóknir til umfjöllunar. Í október verða svo ferðamál til umfjöllunar á Akureyri en á síðari málþingum ársins verður m.a. hugað að máltækni og umhverfismálum.
Annar liður í afmælisdagskránni er samstarf við Vísindavefinn um dagatal íslenskra vísinda-manna þar sem umfjöllun um fræðimenn birtist daglega allt árið: Markmiðið er að bregða upp svipmynd af fjölbreyttri flóru blómlegs rannsóknastarfs hérlendis og þýðingu þess fyrir samfélagið allt.
Vísindafélag Íslendinga var stofnað 1. desember 1918, sama dag og Ísland varð fullvalda ríki, með það í huga að öflug vísindastarfsemi væri þjóðinni nauðsynleg til að dafna. Meðal markmiða félagsins er að styrkja stöðu vísinda í íslensku samfélagi og menningu, m.a. með því að stofna til umræðu og samræðna fólks úr ólíkum fræðigreinum sem starfar á ýmiss konar vettvangi.
Fyrirlesarar og erindi:
- Hugrún Harpa Reynisdóttir, forstöðumaður Nýheima: „Það virkar að tala við okkur.“
- Hildur Ýr Ómarsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar í sveitarfélaginu Hornafirði: Ungt fólk í fjölmenningarsamfélaginu Hornafirði.
- Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við HÍ: Ungmenni og nærsamfélagið.
- Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við menntavísindasvið HÍ: „Ég er bara ekki þessi týpa.“ Skólaval, persónuvirði og tilvistarlegt öryggi meðal framhaldsskólanema.
- Þórólfur Þórlindsson, prófessor emeritus: Staða ungs fólks á Íslandi.