Stjórnvöld hafa látið vinna greiningar á samsetningu íbúa og atvinnulífs á síðustu mánuðum í kjölfar efnahagsþrenginga vegna áhrifa Covid 19. Starfsmenn sveitarfélagsins tóku saman úr gögnunum áhugaverðar upplýsingar varðandi þróun íbúafjölda og íbúasamsetningu í sveitarfélaginu.
Það er fagnaðarefni að undanfarin ár hefur íbúum í Sveitarfélaginu Hornafirði verið að fjölga en árið 2010 bjuggu 2.086 íbúar í sveitarfélaginu en í dag eru þeir 2.418 talsins.
Íbúasamsetning hefur einnig breyst töluvert á þessum tíma en íslenskum ríkisborgurum hefur fækkað lítillega frá því að vera 1.981 talsins árið 2010 í 1.882 í dag. Árið 2013 mældust flestir íslenskir ríkisborgarar í sveitarfélaginu eða 2.047. Á meðan Íslendingum fækkar þá hefur fjöldi erlendra ríkisborgara aukist jafnt og þétt en í dag búa hér 536 íbúar með erlendan ríkisborgararétt. Hlutfallslega er fjölgunin mest frá árinu 2014 en þá voru erlendir ríkisborgarar 6% af íbúasamsetningunni en árið 2019 voru þeir um 20%. Fjölmennasti hópurinn er frá Póllandi.
Meðalaldur íbúa hefur lækkað á þessu tímabili og stafar það af fjölgun erlendra ríkisborgara á aldrinum 25 til 34 ára.
Breyting á samsetningu starfa
Atvinnulíf hefur dafnað samfara mikilli aukningu á komum ferðamanna til landsins og ekki síst fjölgun ferðamanna á jaðartímum. Fjöldi heilsársstarfa í ferðaþjónustunni hefur aukist mikið eða um 24% frá árinu 2008, þá voru heilsárstörf 9,8% af störfum í sveitarfélaginu en árið 2019 voru þau 35,6% af heilsárstörfum. Hlutfall rekstrartekna ferðaþjónustunnar er 22,8% af rekstartekjum fyrirtækja í sveitarfélaginu.
Íbúavelta er mikil og bendir það til þess að fólk flytur til sveitarfélagsins til að vinna í stuttan tíma, en það sem af er þessa árs hafa 200 íbúar flutt brott úr sveitarfélaginu en 199 hafa flutt í sveitarfélagið.
Atvinnuástand í dag
Atvinnuleysi hefur ekki verið mælanlegt síðustu 8 ár. Eftir að Covid 19 faraldurinn skall á og með tilheyrandi sóttvarnaraðgerðum og hömlum á landamærum breyttist staðan hér í sveitarfélaginu. Atvinnuleysið mældist hæst í apríl síðastliðinn þegar allt var lokað eða 28%, en hlutfallið hefur lækkað og er áætlað atvinnuleysi í ágúst 12,2% í sveitarfélaginu en á landsvísu er áætlað atvinnuleysi 9,6%.
Af þeim sem eru án atvinnu í sveitarfélaginu eru 65% þeirra með erlendan ríkisborgararétt. Hæsta hlutfall atvinnuleysis er í atvinnugreinum sem tengjast ferðaþjónustu og þá helst gistiþjónustu. Unnið er að aðgerðum til að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu í samstarfi við SASS, Byggðastofnun og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og hefur sveitarfélagið fengið 18 m.kr. fjárframlag til þess frá ríkinu. Það er ljóst að aðstæður í sveitarfélaginu eru erfiðar sem stendur en við verðum að vona að það birti til um síðir og hingað munu streyma ferðamenn sem fyrr þegar Covid 19 fárið líður hjá.