Nú líður senn að jólum. Jólahátíðinni fylgir friður og gleði. Börnin hlakka til að taka upp pakkana og öll hlökkum við til að borða góðan mat og njóta samveru með fjölskyldunni og vinum.
En því miður eru nokkur þúsund Íslendingar sem ekki búa við efnahagslegar aðstæður sem gera þeim kleift að halda mannsæmandi jól vegna fátæktar. Þessi börn sem búa við að þessar aðstæður kvíða jólunum. Engar eða fátæklegar gjafir og jólamaturinn af skornum skammti. Enn viðgangast skerðingar þó að nokkrir ráðaherrar hafi heitið því að bæta kjör þessa fólks. Loforðin hafa verið svikin. Ráðherra kom fram með þær fréttir að nú ætti að bæta nokkrum milljörðum í kjör fatlaðra og til þeirra sem eru verst settir. Það kviknaði vonarneisti en þegar þessi ágæti ráðherra sagði að þetta kæmi til framkvæmda 2025 brast sú von. Það er núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnum til skammar að fátækt skuli viðgangast á Íslandi.
Eystrahorn kemur út í síðasta sinn undir stjórn núverandi ritstjóra fimmtudaginn 21. desember. Ég vil færa Arndísi Láru ritstjóra og hennar fólki bestu þakkir fyrir að gefa út blaðið. Vonandi eru einhverjir tilbúnir til að taka við keflinu og halda útgáfunni áfram. Þetta er jafnframt minn síðasti pistill. Vonandi hafa þessir pistlar ekki sært neinn. Tilgangur þeirra var að reyna að skapa umræðu um þörf málefni okkar. Ég óska íbúum sveitarfélagsins gleðilegrar jólahátíðar og hamingju á komandi ári.
Bestu kveðjur Þorvaldur þusari