Áður en verulega fór að halla á í baráttunni við veiruna og tilmæli um að takmarka ferðalög um landið komu fram átti ég góða ferð frá Höfn í Hornafirði til höfuðborgarinnar. Það var ánægjuleg ferð og gaman að sjá þær miklu umbætur sem standa yfir eða eru í undirbúningi á hringveginum sem sker Suðurland. Það var líka einstaklega gaman að heimsækja þá sem bera hitann og þungann af framkvæmdunum á svæðinu. Maður er líka farinn að sakna þess verulega að geta ekki hitt fólk og spjallað um landsins gagn og nauðsynjar og veit ég að ég er ekki einn um það að þrá að geta notið mannlífs og menningar í okkar góða landi.
Tímabundið ástand
Suðurland hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi þegar kemur að uppbyggingu metnaðarfullrar ferðaþjónustu á Íslandi síðustu ár. Höggið var því mikið þegar milljóna ferðamanna nýtur ekki lengur við. Maður verður reglulega að minna sig á að þetta sé tímabundið ástand og mikilvægt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu markvissar og miði að því að vernda störf og skapa. Atvinnuleysi er eitur í beinum okkar Íslendinga og leggjum við í ríkisstjórninni allt kapp á að brúa það bil sem verður óhjákvæmilega þegar ferðaþjónusta í öllum heiminum er í frosti. En eins og það er víst að það vorar þá er víst að þegar tök nást á heimsfaraldrinum þá fjölgar gestakomum til Íslands enda hefur landið upp á mikið að bjóða, náttúruna, menninguna og þær góðu aðstæður sem framsýnt og metnaðarfullt fólk í ferðaþjónustu hefur byggt upp á síðustu árum og áratugum.
Stuðningur við sveitarfélög
Ég hef lagt mikla áherslu á gott samstarf við sveitarstjórnarstigið frá því ég settist í stól samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og þegar efnahagslegar afleiðingar faraldursins tóku að bíta hefur það samstarf og samvinna styrkst mjög. Hluti af því hefur verið viðamikil greiningarvinna á stöðu og horfum sveitarstjórnarstigsins en einnig beinar aðgerðir til að styðja við þau sveitarfélög sem hafa orðið fyrir mesta högginu. 250 milljónum var veitt í verkefni á Suðurnesjum þar sem ástandið er alvarlegast og 150 milljónum til sex sveitarfélaga, fimm á Suðurlandi auk Skútustaðahrepps fyrir norðan.
Verkefni sem búa okkur undir bjartari framtíð
Ráðstöfun þeirra fjármuna sem runnið hafa til fimm sveitarfélaga á Suðurlandi var ákveðin í góðu og gefandi samstarfi við sveitarfélögin sjálf, Bláskógabyggð, Mýrdalshrepp, Rangárþing eystra, Skaftárhrepp og Sveitarfélagið Hornafjörð. Meðal átaksverkefnanna má nefna sérstakan stuðning við erlenda ríkisborgara, sögustíg í Vík, Errósetur á Kirkjubæjarklaustri, vinna með eldri borgurum í Bláskógabyggð, hönnun hjólreiðastíga og heilsueflandi samfélag í Rangarþingi eystra og atvinnuskapandi átaksverkefni og aðstaða fyrir störf án staðsetningar á Höfn í Hornafirði. Þessi verkefni öll og fleiri sem komin eru í gang koma ekki í staðinn fyrir ferðaþjónustuna en ég er sannfærður um að þau styrkja samfélögin og búa undir tímann þegar allt fer í gang að nýju. Og það er óhætt að segja að það styttist í það með hverjum degi sem líður.
Óhrædd og reynslunni ríkari
Ég er bjartsýnn að eðlisfari. Og síðustu mánuðir hafa styrkt þann eiginleika því ég hef fundið hjá þjóðinni samhug og kraft sem ég held að verði einstaklega gott veganesti inn í framtíðina. Við eigum nú mörg í minningabankanum gott íslenskt ferðasumar þar sem ég held að margir hafi kynnst landinu sínu, sumir í fyrsta sinn og aðrir kynnst því upp á nýtt. Með þessa reynslu sem faraldurinn hefur dembt yfir okkur munum við taka framtíðinni opnum örmum, óhrædd og reynslunni ríkari.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra