Takk!

0
530

Nú eru aðeins tveir stuttir dagar í kosningar þar sem að við öll höfum tækifæri til að segja hug okkar og kjósa þá fulltrúa sem við treystum best fyrir ákvörðunum sveitarfélagsins næstu fjögur árin.
Síðustu vikur hafa frambjóðendur keppst við að segja frá öllum sínum markmiðum, áætlunum og nákvæmum skrefum í hinum ýmsu málum.
Næstu fjögur árin eru þó einnig óskrifað blað, sama hversu vel við reynum að áætla og skipuleggja okkur. Við höfum lagt upp okkar áætlun og okkar sýn en óvæntar aðstæður, áskoranir og ákvarðanir munu óumflýjanlega koma upp. Við munum þurfa að taka afstöðu til málefna sem okkur hafa ekki dottið í hug og höfum ekki undirbúið neitt svar við. Því er mikilvægt að við séum einnig hreinskilin við ykkur um okkar hugsjónir. Þær eru okkar leiðarvísir í öllum ákvörðunum sem við tökum næstu fjögur árin og við viljum að þið þekkið þær og skiljið.
Kex var stofnað í kringum ákveðin grunngildi. Við leggjum áherslu á gagnsæi í stjórnsýslu og skýra framtíðarsýn sem einkennist af áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Við höfum jafnréttismál í forgrunni og viljum styðja menningu og velsæld í sveitarfélaginu. Þetta eru þau málefni sem að við teljum skipta hvað mestu máli og þessi gildi eru í forgrunni í öllum okkar ákvörðunum og allri stefnumótunarvinnu.
Í þessari viku höfum við farið vítt um sveitarfélagið og rætt við fjölmarga aðila í ólíkum stofnunum til að fræðast um lífið á ólíkum stöðum. Við leggjum upp með að kynna okkur málin til hlítar áður en við tökum ákvarðanir fyrir hönd okkar allra. og verðum ykkur ávallt þakklát fyrir að gefa okkur af tíma ykkar og þekkingu.
Stefnumál Kex voru mótuð með íbúum sveitarfélagsins í gegnum samráð og teljum við slíka vinnu framtíðina í starfsháttum sveitarfélagins. Baráttumál okkar snúast um bættar aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum, t.a.m með vönduðu útboði varðandi sorphirðu. Við leggjum áherslu á að auka framboð af fjölbreyttum lóðum og horfum þar til ÍB5 með vísun í niðurstöður íbúafundarins frá því í september 2021. Við viljum styrkja innviði sveitarfélagsins svo að við þolum vel þá uppbyggingu sem við vonumst öll eftir að verði að veruleika á næstu árum. Endurskoðun á aðalskipulagi þarf að vera vönduð og ítarleg og taka mið af okkar bjartsýnustu spám varðandi þróun sveitarfélagsins og íbúafjölda.
Við viljum að hér sé gaman og gott að búa, sama hvar þú býrð í sveitarfélaginu. Við viljum að hér geti allir fengið að njóta sín og njóta fjölbreyttra tækifæra í námi og starfi. Við viljum að hér sé eftirsóknarvert að búa, því að hér viljum við öll vera.
Næstu ár verða okkur bæði spennandi og krefjandi og þrátt fyrir góðan undirbúning þá getum við aldrei verið viss um hvert framtíðin leiðir okkur. Við teljum þó að þau grunngildi sem við höfum mótað okkur verði góður grunnur í öllum málum og vonum að þau geti gefið ykkur öllum góða mynd af því fyrir hvað Kex stendur fyrir.
Ég vil, fyrir hönd okkar allra, þakka ykkur öllum fyrir góðar móttökur, stuðning og aðstoð síðustu vikur. Þetta hefur verið virkilega lærdómsríkt ferli og höfum við lært mikið af því að hlusta á ykkur, hvort sem er á fundum eða í spjalli víðsvegar um sveitarfélagið. Ykkar sýn á sveitarfélagið okkar hefur sýnt okkur hversu fjölbreytt það er og hversu rík við erum af tækifærum og mannauði. Öll stöndum við í þessu saman og ég lofa ykkur því að nái ég kjöri þá vinn ég fyrir ykkur, alveg óháð því hvert atkvæðið ykkar ratar. Ég vona samt að þið gefið Kex rödd 14. maí og setjið X við K.

Eyrún Fríða Árnadóttir
Höfundur skipar 1. sæti á K – lista Kex framboðs
www.xkex.is