Sýning í Nýheimum

0
2308
Stelpurnar við ofninn

Síðastliðið haust var samsýningin „Frá mótun til muna“ sett upp í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, en að henni standa níu leirlistarmenn víðsvegar að af landinu. Hópurinn ákvað í kjölfarið að miðla þessari áhugaverðu þekkingu um fjölbreytileika þessarar listgreinar til almennings og gera sýninguna að farandsýningu. Fyrsti áfangastaðurinn í þeirri ferð er hér á Höfn í samstarfi við Menningarmiðstöðina og næsti viðkomustaður er í Safnahúsinu á Húsavík í september.
Auk verka eftir listamennina, sem öll voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna, má segja að kjarni hennar sé heimildarmyndin – Raku frá mótun til muna, en hún var tekin upp og unnin haustið 2017 Þegar Handverk og hugvit undir Hamri í Hveragerði fékk kennarann og listamanninn Anders Fredholm frá Svíþjóð til að halda vinnustofu um byggingu á viðarbrennslu-rakuofni og aðrar frumstæðar leirbrennslur við opinn eld.

Anders og ofninn
Anders og ofninn

Holubrennsla er upprunalegasta brennsluaðferðin, en hana var farið að nota um sex þúsund árum fyrir Krist. Í byrjun voru munirnir ekki vatnsheldir en menn tóku eftir því að askan sem settist á munina myndaði einhvers konar glerung sem gerði þá vatnshelda. Það má því segja að hver hlutur sem fer í holubrennslu sé einstakur. Í dag eru nýtt alls konar efni til að ná fram hinum ýmsu litum í leirinn s.s hrossaskít, þara, kaffikorg, þurrt gras, salt ásamt ýmiskonar oxidum. Þessi efni ásamt þremur helstu grunnefnum heimsins, jörð, eldur og loft skapa brennsluna og mismunandi aðkoma þeirra mótar útkomuna. Leirlistamaðurinn er hluti af brennslunni en ekki stjórnandi. Hann tengist jörðinni, nýtur og bíður fagnandi hins óvænta.
Raku brennsla er einnig aldagömul og á uppruna sinn í Kína á 12. öld. Japanir tóku þessa hefð upp á 16. öld í tengslum við tedrykkjuathafnir sem tengjast hugmyndafræði Zen-búddisma. Hugtakið raku merkir gleði, ánægja eða hamingja og má segja að það hafi verið þessar tilfinningar sem þeir voru að nálgast í tedrykkjuathöfnum sínum. Við það að einangrun Japans rofnar um miðja nítjándu öld berst þessi þekking út til Vesturlanda. Fyrir um fjörtíu árum varð til ný aðferð innan rakubrennslunnar hjá leirlistamanninum David Roberts sem kallast Naked Raku. Þessi aðferð er mjög vinsæl og er mikið notuð í dag. Út frá námskeiðinu hjá Anders Fredholm myndaðist sterkur hópur af kjarnakonum sem kalla sig Brennuvarga. Þær njóta þess að koma saman úti í náttúrunni og brennuvargast.
Verið velkomin á opnun á sýningunni „Frá mótun til muna“ í Nýheimum Sunnudaginn
26. maí kl. 15:00. Sýningin mun standa í Nýheimum frá 26. maí til 30. júní.
Sýnendur eru Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Hólmfríður Arngrímsdóttir, Hrönn Waltersdóttir, Ingibjörg Klemenzdóttir, Katrín V. Karlsdóttir, Ólöf Sæmundsdóttir, Steinunn Aldís Helgadóttir og Þórdís Sigfúsdóttir.