Nú í vikunni hlaut sveitarfélagið Hornafjörður jafnlaunavottun.
„Undirbúningur fyrir vottun hefur staðið yfir í rétt rúmt ár“ segir Sverrir Hjálmarsson, mannauðs- og gæðastjóri sveitarfélagsins, en hann hefur leitt vinnuna og þróað það jafnlaunakerfi sem nú hefur verið innleitt.
Á heimasíðu stjórnarráðsins stendur að meginmarkmið jafnlaunavottunar sé að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og þar með unnt að veita viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.
„Við vinnuna var meðal annars könnuð staða launasetningar innan sveitarfélagsins með tilliti til kynbundins launamunar“ segir Sverrir. „Launagreiningin, sem unnin var af Ráðum ehf. leiddi í ljós að kynbundinn launamunur hjá sveitarfélaginu mælist nú aðeins 0,9%, konum í hag. Það verður að teljast frábær árangur enda gefur greiningin til kynna að við séum á réttri leið í jafnréttismálum. Við erum stolt af þessum áfanga og þeirri viðurkenningu sem í vottun felst á starfsháttum sveitarfélagsins. Nú er það sameiginlegt verkefni okkar sem hjá Sveitarfélaginu störfum að viðhalda þessum góða árangri“ segir Sverrir að lokum.