Ágætu íbúar,
Nýlega tók gildi breyting á byggingarreglugerð sem felur í sér nýja flokkun mannvirkja eftir umfangi þeirra m.t.t. stærðar, notkunar, hættu á manntjóni og umhverfisáhrifa. Breytingin er í
takt við áform um einföldun stjórnsýslu byggingamála sem fram koma í nýjum stjórnarsáttmála. Þar sem byggingaframkvæmdir eru kostnaðar- og tímasamar er gott að allir kynni sér þessar breytingar. Mannvirki eru nú flokkuð í þrjá umfangsflokka:
Í umfangsflokki 1 er minni mannvirkjagerð, t.d. frístundahús, geymsluhús, landbúnaðarbyggingar, gestahús, stakstaðir bílskúrar, við-
byggingar og niðurrif mannvirkja. Ekki er þörf á að sækja um
byggingaleyfi fyrir þessar framkvæmdir, en sækja skal um
byggingarheimild (byggingarheimild er nýtt hugtak). Umsóknum um byggingarheimild skulu fylgja
aðaluppdrættir, byggingarlýsing, skráningartafla (ef við á), gögn sem sýna eignarheimild og samþykki meðeigenda og önnur gögn sem byggingafulltrúi telur nauðsynleg t.d. umsögn Minjastofnunar þegar við á.
Skilyrði fyrir veitingu byggingarheimildar eru eftirfarandi: samræmi framkvæmdar við skipulag, yfirferð og staðfesting aðaluppdrátta, skil á skráningartöflu (ef við á), staðfesting byggingastjóra, greiðsla viðeigandi gjalda, og að byggingastjóri og hönnuður séu með samþykkt gæðastjórnunarkerfi. Ekki er þörf á staðfestingu iðnmeistara vegna byggingarheimildar. Ekki er gert ráð fyrir yfirferð séruppdrátta, en skila skal þeim til byggingafulltrúa áður en lokaúttekt fer fram. Byggingastjóri annast innra eftirlit með verkinu og sér um framkvæmd áfangaúttekta.
Í umfangslokki 2 eru m.a. íbúðarhús, gistiheimili, atvinnuhúsnæði og iðnaðarhúsnæði. Sækja skal um byggingarleyfi fyrir þessum framkvæmdum. Skilyrði fyrir útgáfu þess eru nánast óbreytt frá því sem var. Séruppdrættir og greinargerðir hönnuða skal skila til yfirferðar og staðfestingar hjá byggingarfulltrúa áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst. Byggingastjóri annast áfangaúttektir, en byggingafulltrúi sér um öryggisúttekt, lokaúttekt, og stöðuskoðanir þar sem skoðað er m.a. hvort byggingastjórar framkvæma reglulega áfangaúttektir.
Í umfangsflokki 3 eru mannvirki þar sem mikill fjöldi fólks getur
safnast saman, s.s. verslunarmiðstöðvar, skólar, íþróttahús, virkjanir og hjúkrunarheimili. Þessi mannvirki eru byggingarleyfisskyld eins og þau í flokki 2, en gert er ráð fyrir því að byggingafulltrúi framkvæmi stöðuskoðanir oftar.
Það hafa einnig breyst ákvæði um tilkynningarskyldar framkvæmdir. Til tilkynningarskyldra framkvæmda teljast nú einungis: nýklæðning þegar byggðra mannvirkja, tjaldhýsi sem nota skal í atvinnustarfsemi, stöðuhýsi sem standa eiga lengur en 4 mánuði, heitir og kaldir pottar, lítilsháttar breytingar á brunahólfun eða burðarvirki (allt að 5% en aldrei meira en 5m²) og breytingar á lögnum. Framkvæmdir þessar skulu vera í samræmi við skipulag. Með tilkynningum skulu fylgja aðaluppdrættir og greinargerð lög-
gilds hönnuðar. Sé tilkynnt um
breytingar á þegar byggðu mannvirki, þar sem aðaluppdrættir eru
til staðar, þarf ekki að skila aðaluppdráttum í heild heldur aðeins þeim hluta aðaluppdrátta sem sýna
breytingarnar. Ekki er heimilt að hefja mannvirkjagerð án staðfestingar byggingafulltrúa. Hafi byggingafulltrúi þó ekki gert athugasemdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar telst hún staðfest og er þá heimilt að hefja framkvæmdir. Vakin er þó athygli á að eigandinn ber ábyrgð á að framkvæmdir séu í samræmi við skipulag, lög og reglugerðir.
Breytt eru einnig ákvæði um þær framkvæmdir sem eru hvorki byggingar- né tilkynningarskyldar og falla ekki undir byggingarheimild. Þessar framkvæmdir eru nú: viðhald
utan- og innanhúss, þ.m.t. endurnýjun
léttra veggja, uppsetning móttökudiska allt að 1,2m, allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna, gerð palla og annar frágangur á eða við yfirborð, skjólveggir og girðingar að uppfylltum skilyrðum, og smáhýsi allt að 15m² og ekki hærri en 2,5m einnig að uppfylltum skilyrðum.
Önnur breyting er að það er nú val hönnuða á hvaða formi teikningum er skilað til byggingafulltrúa. Hægt er t.d. að skila teikningum á rafrænu formi með rafræni undirskrift. Gildandi byggingarreglugerð með breytingum er hægt að skoða á vefsíðu byggingarreglugerð.is. Verið er að vinna í uppfærslu á stafrænu umsóknarkerfi sveitarfélagsins Íbúa-
gátt til samræmis við þessar breytingar.
Vakin er athygli á nýrri vefsíðu mannvirkjaskra.is. Á síðunni er hægt að skoða upplýsingar um mannvirki á Íslandi. HMS gerir ráð fyrir því að í framtíðarútgáfum verður hægt að nálgast þar upplýsingar um breytingar og viðhald sem gerðar hafa verið á húsum.
Byggingafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar