Starfsemi sveitarfélagsins skert á meðan Covid-19 faraldurinn gengur yfir

0
843

Sveitarfélagið Hornafjörður fer ekki varhluta af faraldrinum Covid-19 eins og flest önnur samfélög. Samkvæmt ráðleggingum sóttvarnarlæknis og Almannavarna hefur þurft að loka eða skerða þjónustu sveitarfélagsins. Ýmsum aðgerðum er beitt til að draga úr hraða og fjölda smita og til að vernda áhættuhópa. Þær stofnanir sem hafa skert þjónustu sína eru:
Afgreiðsla Ráðhúss sveitarfélagsins verður lokuð. Símsvörun er óbreytt og er íbúum bent á rafrænar gáttir, íbúagátt, heimasíðu og tölvupóst á afgreidsla@hornafjordur.is.
Fundir í ráðhúsinu með utan_aðkomandi í húsnæðinu eru ekki heimilir, notast verður við fjarfundarbúnað og símafundi. Nefndarfundir eru haldnir í fjarfundi.
Reynt er að halda skólahaldi óskertu, foreldar eru beðnir að koma ekki í skólana. Yngri börnin eru í fullum skóla og eru þeim kenndar allar greinar í bekkjastofum þeirra, íþróttagreinar falla niður en kennt er úti ef veður leyfir. Bekkjadeildir frá 6.-10 bekk mæta í skólann annan hvern dag og fara heim í hádeginu, skv. skipulagi sem unnið hefur verið.
Kátakot lokar tímabundið fyrir 3. og 4. bekk, 1. og 2. bekkur fá lengri viðveru en eru í sínum bekkjarstofum og blandast ekki við aðra bekki. Gjöld falla niður hjá þeim sem ekki eru í lengri viðveru.
Leikskólinn hefur biðlað til forráðamanna sem hafa tök á, að halda börnunum sínum heima á meðan faraldurinn gengur yfir. Varðandi gjaldskrá leikskóla og Kátakots falla gjöld niður hjá þeim sem taka börnin sín úr vistun.
Foreldrar eru beðnir um að fara að gát og koma ekki inn á deildir heldur einungis fara inn í fataklefana og gæta að 2 m fjarlægðarreglunni. Ráðstafanir eru gerðar með útiveru, börnin fara einungis út með sinni deild og er garðinum skipt upp í þrjú svæði. Leikskólanum er lokað kl. 15:00 á daginn til að gefa starfsfólki tíma til að sótthreinsa leikföng, borð, stóla og aðra snertifleti.
Félagsmiðstöðin Þrykkjan er lokuð.
Sindrabæ er eingöngu haldið opnu sem skólahúsnæði fyrir Tónskólann, allir einkatímar eru óbreyttir og kennsla í tónfræði helst óbreytt. Lúðrasveitaræfingar falla niður ásamt öllu tónleikahaldi. Aðgangur annarra en starfsmanna og nemanda er ekki leyfður.
Sundlaug og íþróttamannvirkjum hefur verið lokað, það á einnig við um Báruna og Reiðhöllina við Stekkhól. Þeir sem eru með hesta í Reiðhöllinni mega koma og sinna hestum sínum.
Menningarmiðstöð Hornafjarðar söfnin og bókasafnið eru lokuð nánari upplýsingar á fésbókarsíðu Menningarmiðstöðvarinnar.
Heilsugæslustöðin beinir því til fólks að nýta sér vefinn heilsuvera.is til lyfjaendurnýjunar eins og unnt er. Reynt verður að leysa erindi skjólstæðinga símleiðis. Þeir sem koma á heilsugæsluna eiga að staldra sem styst við og ekki koma með aðstandendur.
Heimsóknir á Hjúkrunarheimilið Skjólgarð eru ekki heimilar, reynt er að hafa samband við aðstandendur í gegn um myndskilaboð.
Hjá málefnum fatlaðra er Selið lokað og boðið er upp á “þjónustan heim“ allir fá sendan mat heim, aukin innlit og starfsmenn leggjast á eitt að halda góðu sambandi símleiðis, boðið er upp á ökuferðir fyrir einn þjónustunotanda í einu.
Öllum viðburðum á vegum sveitarfélagsins verður frestað. Stofnanir sveitarfélagsins loka fyrir utanaðkomandi heimsóknir eftir því sem hægt er. Starfsmenn á stofnunum skipta sér í stöðvar/hólf, þeir sem eiga vaktaskipti hittast ekki til að halda öryggi og starfsemi sveitarfélagsins gangandi að öðru leyti.
Unnið er að útfærslu vegna niðurfellingu á gjöldum eða frestun á gjalddögum hjá sveitarfélaginu í samræmi við tilmæli stjórnvalda. Höldum uppi forvörnum, fylgjum fyrirmælum hvað varðar handþvott og annað hreinlæti og virðum samkomubannið.