Spennandi vetur framundan hjá Háskólafélagi Suðurlands

0
478

Haustið fer hressilega af stað hjá Háskólafélagi Suðurlands (HfSu) með nýjum verkefnum og nýju fólki, en félagið er meðal annars samstarfsaðili Nýheima í mörgum verkefnum.
Sem áður er þungamiðja starfsins nemendaþjónusta en hún hefur aukist ár frá ári samhliða þróun og aukningu á framboði fjarnáms. Verkefni nemendaþjónustunnar eru að halda úti námsveri, sjá um prófaskipulag fjarnema ásamt því að reka kaffistofu/samverurými fyrir nemendur.
„Önnur og ekki síður mikilvæg verkefni snúast um að auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með uppbyggingu þekkingarsamfélags og hefur HfSu verið í forsvari fyrir mörg slík verkefni í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila. Sem dæmi um slíkt má gjarnan nefna uppsetningu og rekstur FabLab smiðju á Selfossi sem staðsett er í Hamri/FSu en rekin er í samstarfi HfSu, FSu og Héraðsnefndar Árnesinga með góðum styrk frá Atorku, SASS og NMÍ, og nú síðast styrkjum og stuðningi frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og Mennta- og menningarmálaráðuneyti“ segir Ingunn Jónsdóttir sem nýlega tók við sem framkvæmdastjóri félagsins.

Fleira í farvatninu

„Annað verkefni sem styður við tilgang félagsins er undirbúningur fyrir stofnun frumkvöðlaseturs en styrkur fékkst úr Lóu nýsköpunarsjóði til þess að þjálfa svokallaða „leiðara“ sem eru frumkvöðla ráðgjafar með meiru. Verkefnið verður unnið í samstarfi annarra þekkingarsetra á Suðurlandi sem og SASS og er mikil tilhlökkun meðal samstarfsaðila að hefja vinnuna“ segir Ingunn jafnframt.
Auk þessara verkefna sinnir HfSu atvinnuráðgjöf fyrir SASS og tekur þátt í margvíslegri þróunar- og verkefnavinnu tengdri menntun og öðrum byggðarmálum. Starfsmenn félagsins eru spenntir fyrir komandi vetri og hvetja alla Sunnlendinga til þess að vera í góðu sambandi og samtali við starfsmenn um allt sem brennur á þeim er varðar menntun á háskólastigi, byggðarþróun eða umhverfi frumkvöðla og nýsköpunar á svæðinu en nánar er hægt að fræðast um félagði á síðunni www.hfsu.is