Sorpmálin – allra hagur að vel takist

0
1290

Í síðasta Eystrahorni birtist grein eftir Þorbjörgu Gunnarsdóttur þar sem spurningum var beint til sveitarstjórnar varðandi sorphirðu í sveitarfélaginu. Okkur er það ljúft og skylt að svara spurningunum sem fram koma í greininni og við þökkum Þorbjörgu erindið, þar sem að það er okkar allra hagur að vel takist til með sorpmálin í sveitarfélaginu.

1. Eruð þið sveitarstjórnarmenn ánægðir með breytingarnar sem gerðar voru í sorpmálum sýslunnar?

Það að breyta úr tveggja tunnu flokkun og bæta við lífrænni flokkun er stórt framfaraspor og skref í rétta átt til að ná betri árangri í flokkun og minnka urðun á sorpi. Gjaldskrárbreyting var gerð þannig að nú borga allir sem henda óflokkuðu sorpi 26 kr á kílóið í stað 9.50 kr áður. Þetta er raunkostnaður við það að henda og urða sorp. Hækkunin skilar því að flestir ættu að sjá hag sinn í að flokka betur.

2. Hve mikið hækkaði kostnaðurinn við hreinsun eftir að búið var að leiðrétta tunnufjölda og breyta yfir í 3 vikna losun?

Árið 2016 þá var kostnaðurinn við málaflokkinn 85.243.181 kr.  Gjöldin sem voru innheimt vegna þjónustunnar voru 55.302.523 kr. Kostnaðurinn við hirðinguna yfir 6 mánuði, frá október 2017 – mars 2018 var 20 milljónir.
Breytingarnar á sorphirðunni fólust í að flokka lífræna úrganginn sérstaklega.
Samningurinn sem gerður var við Íslenska gámafélagið, að undangengnu útboði þar sem þrír aðilar skiluðu tilboði, er til 5 ára. Útboðið og útkoma þess var samþykkt af allri bæjarstjórn, án athugasemda. Samningurinn er um hirðingu á sorpi frá heimilum, rekstur á gámaporti og rekstur á urðunarstaðnum í Lóni. Gjald á sorpþjónustunni við íbúana vísitöluhækkaði um 4.8%, var 29.925- á íbúð og fór í 31.422-. Í þessu samhengi þá er vert að benda á að þetta gjald er með því lægsta sem þekkist á Íslandi. Til viðmiðunar þá voru sambærilegar breytingar á sorpmálum gerðar í vetur í Fjarðabyggð. Þar er gjaldið á hverja íbúð um 42.510 kr.

3. Hver er ávinningurinn í tölum eftir þann tíma sem liðinn er frá breytingum?

Ávinningurinn er sá að nú er mun minna urðað. Það var stórt markmið með breytingunum, að tryggja betri nýtingu á urðunarstaðnum í Lóni. Núna eru færri urðunardagar, meira rusl er urðað í einu með mun minna af jarðefni, möl og mold sem þarf til að fergja sorpið. Þetta tryggir mikinn sparnað til lengri tíma séð. Það er erfitt að koma fram með samanburðarhæfar tölur, aðrar en heildartölur á sorpmagni. Milli ára þá hefur úrgangur aukist um 10-15% á landsvísu, það sama á við í sveitarfélaginu okkar. Þetta skýrist m.a. af aukinni hagsæld og uppsveiflu í efnahagsmálum.

4. Hvernig er ferlið með lífræna úrganginn? Er moltugerðin komin vel á veg?

Lífræni úrgangurinn fer til jarðgerðar í Gufunesi í Reykjavík og hafa verið jarðgerð u.þ.b. 36 tonn, sem fer þá ekki til urðunar.

5. Er timburkurl aðgengilegt fyrir íbúa?

Kurlað timbur er aðgengilegt á gámasvæði í hvítum sekkjum fyrir almenning.

6. Hversu mikið hefur það sem er urðað í Lóni minnkað að þyngd og ummáli, miðað við sömu mánuði síðustu ár?

Hagnaðurinn er mestur í því að minna er urðað af möl og mold. Á fundi umhverfisnefndar 6. febrúar s.l. var farið yfir magntölur í sorphirðu síðasta árs. Á tímabilinu ágúst til desember 2017 kemur í ljós að skipting á sorpi milli fyrirtækja og heimila er í hlutfallinu 73% frá fyrirtækjum og 27% frá heimilum. Þetta segir okkur að nærri því 3/4 af sorpinu falla til frá fyrirtækjum en 1/4 frá heimilunum.
Áskorunin í því að flokka betur og urða minna sorp liggur þ.a.l. að stórum hluta hjá fyrirtækjum. Við verðum að stíga saman þau skref að sorpið sé vel flokkað. Það bíða margar áskoranir ennþá í sorpmálum. Sérstaklega þarf að huga að því að auka þjónustuna í sveitum, við íbúa og ferðamenn. Í bígerð er að koma upp gámaportum eða móttökustöðum í sveitum, þar sem hægt verður að koma með flokkað sorp. Það er alltaf hægt að gera betur og auka þjónustuna. Slíkt verður að gera með samstilltu átaki sveitarfélagsins, fyrirtækja og íbúa svo að tilkostnaður verði sem minnstur og árangur sem mestur.

Sæmundur Helgason og Björn Ingi Jónsson
Oddvitar 3.framboðsins og Sjálfstæðisflokksins

SH_BIJ