Eftir umræður og samninga við lægstbjóðanda, sem er Íslenska gámafélagið ehf, er komin niðurstaða í hvernig sorpmálum sveitarfélagins verður háttað sem snýr að heimilum. Í sveitarfélaginu eru um 460 heimili í þéttbýli og 130 heimili eru í dreifbýli.
Í þéttbýli verða þrjú ílát við hvert heimili. Tvær 240L tunnur verða við hvert heimil. önnur fyrir óflokkað almennt sorp, hin fyrir endurvinnanlegt. Ílát 30-40L undir lífrænan úrgang verður haft ofan í tunnu fyrir almennt sorp. Lífrænum úrgangi verður safnað tvisvar sinnum í mánuði yfir sumartíma og 1 sinni í mánuði yfir vertartíma.
Í dreifbýli verða tvö ílát við hvert heimili. Óflokkað almennt sorp fer í 240L tunnu og allt endurvinnanlegt í 660L ílát. Lífrænt sorp er sett í jarðgerðartunnu. Íbúum í dreifbýli verður í sjálfsvald sett hvort þeir taki jarðgerðartunnu. Þeim verður þó ekki heimilt að setja lífrænt í almennu tunnuna.
Íslenska gámafélagið ehf. mun sjá um hirðingu sorps frá heimilum í þéttbýli og dreifbýli ásamt móttöku sorps frá fyrirtækjum og stofnunum, flokkun sorpsins og ráðstöfun þess. Verktakinn sér einnig um rekstur móttöku- og flokkunarstöðvar og meðhöndlun lífræns úrgangs. Verktakinn sér líka um rekstur og umsjón með urðunarstaðnum í landi Fjarðar í Lóni. Þessi breyting mun verða 1. ágúst 2017.
Þar sem um breytingar á sorphirðu og flokkun er að ræða verða breytingarnar kynntar fyrir íbúum. Íslenska gámafélagið ehf mun sjá um kynningar fyrir íbúa í nánu samstarfi við sveitarfélagið. Haldinn verður kynningarfundur ásamt því að útbúinn verður bæklingur sem borinn verður á hvert heimili. Í bæklingnum verður farið yfir flokkun og hirðingu á sorpi og útskýrt hvernig kerfið mun virka. Upplýsingar verða settar inn á heimasíðu sveitarfélagsins með spurningum og svörum varðandi flokkun og sorphirðu. Þar mun íbúum einnig gefast kostur á að senda inn fyrirspurnir og fá svar við þeim. Kynningafundir verða auglýsir síðar.
Sjálfsafgreiðsla fyrir endurvinnslusorp er opin utan opnunartíma móttökustöðvarinnar hér eftir sem hingað til við Gáruna. Í umræðunni er að koma upp fleiri móttökustöðvum, eða gámaportum í dreifbýli. Fyrirmyndin sem verið er að skoða er sambærileg og sveitarfélög í Uppsveitum Árnessýslu hafa. Þetta eru gámaport sem hafa takmarkaðan opnunartíma ef einhver vill losa sig við eitthvað magn, en gönguhlið sem gerir það aðgengilegt allan sólarhringinn í sjálfsafgreiðslu að koma með allt smávægilegt og flokka í rétta gáma.
Með þessum breytingum á sorphirðu nást vonandi fram þau markmið sem umhverfisnefnd, bæjarráð og bæjarstjórn hefur haft að leiðarljósi. Það er að auka endurnýtingu úrgangs, minnka urðun, uppfylla ítrustu kröfur í úrgangsmálum og hafa áfram góða þjónustu við íbúana.
Sæmundur Helgason
formaður umhverfisnefndar