Solander 250 í Svavarssafni

0
295

Sýningin Solander 250: Bréf frá Íslandi verður opnuð í Svavarssafni laugardaginn 20. maí klukkan fjögur. Undanfarna mánuði hefur þessi sýning farið á milli safna á Íslandi, fyrsti viðkomustaður var Hafnarborg í Hafnarfirði, en síðan þá hefur hún farið um allt land, til Vestmannaeyja, Egilsstaða, Ísafjarðar og Akureyrar svo nokkrir staðir séu nefndir, og er nú loks komin til Hornafjarðar. Kveikjan að sýningunni er sú staðreynd að nú eru um 250 ár liðin frá einum fyrsta erlenda vísindaleiðangrinum til Íslands, 1772. Tíu íslenskir grafíklistamenn, þau Anna Líndal, Aðalheiður Valgeirsdóttir, Daði Guðbjörnsson, Gíslína Dögg Bjarkadóttir, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Iréne Jensen, Laura Valentino, Soffía Sæmundsdóttir, Valgerður Björnsdóttir og Viktor Hannesson, túlka á sýningunni þetta ferðalag og þær breytingar sem hafa átt sér stað á landi og þjóð síðan það átti sér stað. Með í þeirri för var einn af lærisveinum hins heimsþekkta sænska náttúruvísindamanns Carl von Linné, sænski náttúrufræðingurinn Daniel Solander. Solander og félagar skrásettu ýmislegt um náttúru Íslands, menningu, siði og klæðaburð, margt af því í fyrsta sinn á vísindalegan hátt. Með verkum íslensku grafíklistamannanna verða verk úr sýningunni Paradise Lost – Daniel Solander‘s Legacy einnig. Þar sýna 10 listamenn frá Kyrrahafssvæðinu, en Solander var í áhöfn HMS Endeavour í fyrstu ferð Evrópumanna til Ástralíu. Sýningin hefur áður verið sett upp á Nýja Sjálandi, í Ástralíu og Svíþjóð. Sýningarnar tvær mynda því einstakt samtal Norðurskautsins og Kyrrahafsins í gegnum ferðir Daniel Solanders. Sýningarnar tvær eru samstarfsverkefni Sendiráðs Svíþjóðar á Íslandi og félagsins Íslensk grafík.

Hver var þessi Solander eiginlega?

Daniel Solander var sænskur náttúrufræðingur sem bjó mestalla ævi sína í Bretlandi, en ferðaðist um Kyrrahafið og Norður-Atlantshafið og safnaði plöntum og skrásetti hjá sér allar upplýsingar um náttúruna á þeim stöðum sem hann heimsótti. Solander fæddist 1733, í Piteå í Norður-Svíþjóð, sem þá rétt eins og nú var pínulítið þorp. Á þeim tíma voru um það bil tíu ár síðan rússneski herinn hafði lagt þorpið í rúst í einu af þeim mörgu átökum sem Svíar og Rússar háðu á átjándu öld, en fjölskylda Solanders var engu að síður sæmilega efnuð og Carl Solander faðir hans bæði þingmaður í Rigsdagen, skólastjóri og prestur. Árið 1750, var hinn sautján ára gamli Daníel sendur til Uppsala að læra lögfræði og tungumál. Hann átti ekki langt að sækja það því föðurbróðir hans og nafni Daníel Solander var prófessor í lögfræði.

Það voru þó náttúruvísindin og sér í lagi grasafræðin sem áttu eftir að liggja fyrir unga manninum. Á þessum tíma var Carl Linneus við háskólann í Uppsölum og var að leggja grunninn að nútíma flokkunarfræði lífvera. Það flokkunarkerfi sem hann vann að breiddist út um allan heim þökk sé lærisveinum sem hann sendi út til að kanna heiminn, og með hjálp frá Carl fékk Daníel leyfi föður síns til að snúa baki við lögfræðinni og hella sér út í náttúruvísindin. Eftir tvö ár í námi við háskólann í Uppsölum hélt Daníel svo í sinn fyrsta leiðangur sem fólst í því að snúa aftur á heimaslóðirnar í Norður-Svíþjóð og skrásetja upplýsingar um lífríkið þar. Stuttu síðar reyndi Linneus að koma lærisveini sínum í stöðu við háskólann í St. Pétursborg, en úr því varð ekki, því Daníel kaus frekar að halda til Bretlands.

Fyrsti Svíinn til að fara kringum jörðina

Það sem eftir var ævi sinnar vann Daníel Solander við British Museum undir náttúrufræðingnum Joseph Banks, en það þýðir þó ekki að hann hafi setið við skrifborð allan daginn. Solander er í dag fyrst og fremst minnst fyrir Kyrrahafsleiðangra sína, sem hann fór um borð í skipi James Cook 1768. Þá heimsótti hann bæði Ástralíu og Nýja Sjáland, og er líklega fyrsti háskólamenntaði maðurinn til að stíga fót í Ástralíu. Botanist Bay í Sidney hlaut nafn sitt af starfsemi Solander, sem og Solander-eyjarnar. Þökk sé þessu starfi Solander voru ótal margar nýjar plöntur skrásettar, en þess má einnig geta að með þessari ferð tókst Daníel að verða fyrsti Svíinn til að fara hringinn í kringum jörðina. Þessi leiðangur undir stjórn James Cook, sem varði þrjú ár, var líka fyrsta hringferðin um hnöttinn þar sem enginn í áhöfn dó úr skyrbjúg. Daníel Solander sat ekki lengi við skrifborð sitt eftir að hann kom til baka úr þessari ferð því að ári síðar 1772 hélt hann í leiðangur um Norður-Atlantshafið og heimsótti Suðureyjar, Orkneyjar og að lokum Ísland. Þetta ár er stórt ár í vísindasögu Íslands, því auk þess að fá fyrsta vísindaleiðangur Englendinga til Íslands, þá ferðabók Eggerts og Bjarna út sama ár.

Af hverju Ísland?

 Samt var það tilviljun að ferðin lá til Íslands. Könnunarleiðangurinn var skipulagður af Joseph Banks, en Kyrrahafsleiðangurinn sem hann fór með þeim Solander og Cook hafði gengið svo vel að hann hugðist endurtaka leikinn, enda var einungis búið að kanna brot af þessu stærsta hafi heimsins. Banks var þó ekki til í að láta bjóða sér hvað sem er, og þegar hann sá skipið sem átti að sigla með hann yfir á hinn enda heimsins þá sagði hann hingað og ekki lengra. Hann þurfti gott rúm og rúmgóða vinnuaðstöðu, og hafði ekki í hyggju að sætta sig við svona þröngan kost í nokkur ár. En Banks gat ekki hætt við leiðangurinn algerlega. Hann var búinn að skrifa undir samninga við teiknara, aðstoðarfólk og vísindamenn, svo hann ákvað að í stað þess að reyna að finna óþekktar eyjar í Kyrrahafinu, skyldu þeir kanna frekar eyjar í Norður Atlantshafinu. Það yrði styttra og þægilegra ferðalag, en meginmarkmið þess var að skoða Heklu. (Leiðangursmenn urðu þó ekki fyrstir upp á Heklu, heldur voru Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson búnir að fara á undan þeim). Leiðangurinn kom að landi í Hafnarfirði 29.ágúst, en það hljóta að hafa verið nokkur vonbrigði fyrir Solander hversu seint á árinu ferðin átti sér stað, því september og október eru ekki bestu mánuðirnir til að safna plöntum. En Íslendingar nutu góðs af heimsókninni engu að síður. Joseph Banks hélt af miklu örlæti veislur fyrir íslensk fyrirmenni þar sem franskur kokkur eldaði ofan í fólk og þar að auki var boðið upp á fleiri en eina víntegund. (Sem Íslendingum þótti merkilegt). Auk þess gaf Banks silfurbúna rakhnífa og úr, meðan aðrir leiðangursmenn útdeildu skinkum í skiptum fyrir rófur.

 Sauðasteik og hvalrengi

 Til er matseðill úr einni af veislunum sem haldin var í kringum þennan leiðangur. Það var landlæknirinn, og fyrsti læknismenntaði Íslendingurinn, Bjarni Pálsson (sem er sami Bjarni og kleif Heklu og gaf út ferðabókina með Eggerti), bauð Banks, Solander og öðrum fyrirmennum heim til sín í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Þar var staupað með dönsku brennivíni, flatkökur með osti og súru smjöri, bitaður harðfiskur, sauðakjötssteik, kjötsúpa með sýru og loks silungur með laufabrauði, borin fram. Einungis undir lok máltíðar þegar gestgjafinn lét sækja hvalrengi og hákarl afþökkuðu gestirnir kræsingarnar. Þess má geta að þessi heimsókn Banks og Solander hafði víðtækar afleiðingar á Íslandssöguna. Þökk sé henni þekktust Joseph Banks og Magnús Stephensen stiftamtmaður, en sá síðarnefndi átti eftir að skrifa Banks nokkrum áratugum síðar í miðjum Napóleónsstríðunum og óska eftir því að Englendingar sendu verslunarleiðangur norður. Joseph Banks sem var mikill Íslandsvinur eftir heimsóknina, var nú ráðgjafi konungs, og gat komið þessu í kring, með þeim afleiðingum að verslunarleiðangur með túlkinum Jörgen Jörgensen, betur þekktum sem Jörundur Hundadagakonungur, fór til Íslands. Daniel Solander lést 1782, um tíu árum eftir Íslandsheimsóknina. Áhrifa hans gætir enn í rannsóknarstarfi, enda átti hann mikinn þátt í að kynna flokkunarkerfi Linneusar fyrir hinum enskumælandi heimi, og fann upp Solanderboxið svokallaða, sem notað er á skjalasöfnum enn í dag, en því miður sökum þess hve mikið af rannsóknum hans voru óútgefnar þegar hann lést hefur hann fallið í skuggann á öðrum samtímamönnum sínum.