,,Við verðum stöðugt að leita leiða til að fyrirbyggja slys og í því sambandi er mikilvægt að læra af reynslunni“, segir Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs VÍS. Hún segir að besta leiðin til þess sé að halda úti markvissri skráningu á slysum og atvikum sem hefðu getað orðið að slysum. Félagið býður fyrirtækjum í forvarnarsamstarfi að taka upp sérstakt atvikaskráningarforrit þeim að kostnaðarlausu. Skráning atvika í forritið er einföld og auðveld en með henni má fá góða yfirsýn yfir vinnuslys og hættum á vinnustöðum. ,,Upplýsingarnar efla yfirsýn fyrirtækja og stuðla að því að fyrirtæki fari markvisst í úrbætur til að draga úr líkum á slysum og tjónum“, segir Auður Björk.
Markmiðið að gera vinnuaðstæður um borð öruggar
Nokkur af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins eru í viðskiptum við VÍS. Eitt þeirra er Skinney – Þinganes. VÍS og Skinney – Þinganes hafa unnið náið saman hvað varðar forvarnir og öryggismál, bæði til sjós og lands. ,,Tilgangur samstarfsins er að bæta öryggismenningu um borð í fiskiskipum og leggja aukna áherslu á forvarnir gegn slysum. Markmiðið er alltaf að gera vinnuaðstæður um borð í skipunum sem öruggastar. Við viljum að allir komi heilir heim“, segir Auður Björk. VÍS hefur í samstarfi við Slysavarnarskóla sjómanna haldið sérstök öryggisnámskeið fyrir áhafnir skipa sem tryggð eru hjá VÍS. Námskeiðin fara fram um borð í hverju skipi og þar af leiðandi í umhverfi sem sjómennirnir gjörþekkja. ,,Það kemur skipverjum oft á óvart hversu margt má færa til betri vegar, án mikillar fyrirhafnar, til að auka öryggi þeirra“, segir Auður Björk.
Til hamingju með daginn sjómenn
,,Í ár óskum við sjómönnum til hamingju með daginn með þeirra táknmáli. Við bregðum á leik með merkjafánum sem tákna stafi í stafrófinu og eru notaðir til að koma skilaboðum frá skipum. Við hvetjum alla þá sem vilja senda sjómönnum kveðju í tilefni dagsins að heimsækja vis.is/ sjomenn“, segir Auður Björk að lokum.