Skógræktarfélag A- Skaft.

0
414

Skógræktarfélag Austur-Skaftafells­sýslu var stofnað árið 1952 og á því 70 ára afmæli nú í ár. Aðalfundur félagsins var haldinn s.l. þriðjudag og af því tilefni verða hér birtir punktar úr skýrslu formanns. Síðasti aðalfundur var haldinn 29. apríl 2021 þar sem núverandi stjórn var samþykkt en hana skipa:

Formaður: Björg Sigurjónsdóttir
Gjaldkeri: Inga Kristín Sveinbjörnsdóttir
Ritari: Gestur Leó Gíslason

Meðstjórnendur: Stephen Johnson og Guðrún Dadda Ásmundardóttir
Varamenn: Sverrir Þórhallsson og Anna Sigurbjörg Sævarsdóttir.
Það komu ekki til breytingar á stjórnarmönnum á síðasta aðalfundi. Við höfum þó fréttir af því að ritarinn okkar sé á faraldsfæti og er því hér með auglýst eftir því að áhugasamir framtíðarritarar setji sig í samband við stjórnarmenn.
Í maí mánuði 2021 kom til okkar fulltrúi frá Skógræktarfélagi Íslands sem kenndi okkur á Avenza skráningarkerfi og höfum við unnið að því á starfsárinu að skrásetja nýjar gróðursetningar og sameina gagnagrunni SÍ um skóga skógræktarfélaga á landinu öllu.
Við sóttum um styrk til land­græðslusjóðs í formi plantna og fengum úthlutað 4000 plöntum sem voru gróðursettar í Haukafelli s.l. sumar. Þetta voru sitkagreni, stafafura og alaskaösp.
Aðrar gróðursetningar voru í Dráps­klettum þar sem grunnskólinn gróðursetti plöntur í samvinnu við skógræktarfélagið okkar og yrkjusjóð. Einnig setti björgunar­félagið niður í Drápskletta birkiplöntur sem til komu vegna seldra rótarskota í kringum áramótin.
Okkar hefur lengi verið ljóst að mikil vinna liggur fyrir í Haukafelli, þar hafa orðið miklar skemmdir á girðingu vegna vatnsflóða auk þess sem tími er kominn á almennt viðhald. S.l. vor var auglýstur vinnudagur í skugga covid faraldurs og eðli málsins samkvæmt var þátttaka ekki mikil og ekki náðist að klára þá vinnu sem þurfti að fara fram til að gera girðinguna fjárhelda. Þá brugðum við á það ráð að auglýsa eftir verktaka sem gæti tekið verkefnið að sér en blessunarlega hefur verið mikið um framkvæmdir í sveitarfélaginu okkar svo það komu engin tilboð í það verk.
Þetta leiddi af sér að fé gekk laust innan girðingarinnar allt s.l. sumar og af þeim sökum fóru gróðursetningar að einhverju leyti forgörðum, sérstaklega urðu aspirnar fyrir áföllum en þær þykja greinilega mikið lostæti.
Tjaldsvæðið var opnað í júní og gekk rekstur þess vel í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð þangað til sóttvarnarreglur voru hertar upp úr miðjum júlí en þá neyddumst við til að loka.
Í desember voru seld jólatré og leiðisgreinar auk þess sem skóg­ræktarfélagið lagði sveitarfélaginu til myndarlegt torgtré sem stóð undir Fiskhól á móts við Olís og var það hið glæsilegasta.
Á komandi starfsári eru mörg verkefni framundan. Í Haukafelli ber helst að nefna kílræsingu við tjaldsvæðið, endurnýjun vatnsbóls, girðingavinna og rekstur tjaldsvæðisins.
Í Drápsklettum er svo í gangi hugmyndavinna, í samstarfi við sveitarfélagið, um að leggja stígakerfi um skógræktarsvæðið þar til að auðvelda almenningi aðgengi að því svæði sem er að okkar mati orðið skemmtilegt og sums staðar skjólsælt og stefnir hraðbyri í að verða skemmtilegur útivistar- og yndisskógur.
Við erum full bjartsýni fyrir komandi starfsári nú þegar covid er að baki (í bili a.m.k.) og hlökkum til að starfa með félögum okkar að uppbyggingu okkar svæða. Auk þess viljum við endilega fjölga í okkar liði og viljum hvetja áhugasama til að ganga til liðs við okkur því það er fátt jafn gefandi og að láta gott af sér leiða í þágu umhverfisins og ekki spillir fyrir ef það er hægt í skjóli skóganna okkar. Hægt er að skrá sig til þátttöku inni á vefsíðu skógræktarfélags Íslands eða setja sig í samband við einhvern stjórnarmanna.
Mig langar að lokum að benda lesendum á að á uppstigningardag verður vinnudagur í Haukafelli þar sem skógræktarfélagið mun vera með nóg af verkefnum fyrir alla sem sjá sér fært að mæta. Það verða í boði veitingar allan daginn og svo af því að við eigum 70 ára afmæli á árinu bjóðum við til grillveislu eftir vinnu dagsins í Haukafelli. Ef einhverjir vilja nýta sér aðstöðuna þar og gista verður það einnig í boði endurgjaldslaust. Við vonumst innilega til að veðurguðir verði okkur hliðhollir og við sjáum sem flesta, félaga eða ekki félaga.

Fyrir hönd félagsins
Björg Sigurjónsdóttir