Skinney-Þinganes afhendir smáíbúðir

0
3151

Þingey ehf., dótturfélag Skinneyjar–Þinganess hf., afhenti í dag lykla að sex smáíbúðum sem hafa verið í byggingu frá því í haust. Auk íbúðanna er sameiginlegt rými í miðju húsinu sem inniheldur eina geymslu fyrir hverja íbúð, sameiginlega þvottaaðstöðu og hjólageymslu. Húsið er byggt úr krosslímdu tré sem framleitt er í Austurríki og klætt með álklæðningu. Nær allt efni í húsið var flutt inn af fyrirtækinu Idex, en aðalverktaki hússins var Sakki ehf. og byggingastjóri eigandi þess Friðjón Skúlason. Sökklar og plata voru steypt af Mikael ehf. Sakki réð sjálfur til sín alla undirverktaka við byggingu hússins. Húsið er fullklárað og hver íbúð skiptist í anddyri, baðherbergi og alrými þar sem lítil eldhúsinnrétting er til staðar, auk tveggja borða, stóla, sófa og rúma. Í þremur af sex íbúðum er niðurfellanlegt rúm þannig að rýmið nýtist sem best. Í vor verður gengið frá bílastæðum með malbiki en búið er að steypa stétt meðfram húsinu og umhverfis sorpskýli sem er fyrir miðju húsi. Einnig verður gengið frá lóðinni í vor með sáningu á grasi eða þökulagningu. Þingey ehf. vill þakka öllum þeim sem komu að byggingu hússins.
Við úthlutun á íbúðunum var ekki hægt að anna allri eftirspurn. Ljóst er að rík þörf er á frekari uppbyggingu íbúða á staðnum. Núna er Mikael ehf. að byggja sex íbúða blokk fyrir Þingey samhliða byggingu á íbúðablokk fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð sem vonandi slær eitthvað á þá miklu þörf sem til staðar er í íbúðamálum á staðnum.