Síðasta námskeið menntaverkefnis Erasmus+, ADVENT (Adventure Tourism in Vocational Education and Training) var prufukeyrt í nýliðnum janúarmánuði. Þetta síðasta námskeið fjallaði um hvernig segja má sögur með aðstoð snjalltækja og samfélagsmiðla.
Umsjónaraðili námskeiðsins var Sólveig Sveinbjörnsdóttir en auk hennar komu Stephan Mantler, Þorvarður Árnason og Guillaume M. Kollibay að framkvæmd þess. Fimm erlendir þátttakendur komu hingað til þátttöku og voru þeir eins og áður frá Skotlandi og Finnlandi.
Á námskeiðinu sem stóð í fjóra daga var m.a. farið í grunn atriði ljósmyndunar og möguleika snjallsímans til myndatöku. Í framhaldinu var farið út í okkar stórbrotnu náttúru og færnin reynd. Námskeiðinu lauk síðan með því að unnið var með leiðir til að nýta mismunandi samfélagsmiðla við að segja þá sögu sem hver og einn þátttakandi kaus.
Lesendur Eystrahorns hafa á síðustu misserum fengið fregnir af fjölbreyttum námskeiðum sem hafa verið sett saman og prufukeyrð í ADVENT verkefninu. Námskeiðin eiga það öll sameiginlegt að vera þróuð af aðilum í ævintýraferðamennsku og skólum sem þjálfunar- og kennsluefni fyrir starfandi aðila í ævintýraferðaþjónustu og skóla sem mennta fólk til starfa í þeim geira. Þessi námskeið byggja öll á virðingu fyrir umhverfinu, náttúru, menningu og því staðbundna á hverjum stað.
Á þessu stigi liggur ekki fyrir hver endanlegur afrakstur af ADVENT verkefninu verður en eitt námskeiðanna hefur þegar verið kennt til eininga í skóla eins samstarfsaðilanna og önnur eru á leiðinni inn sem aukið námsframboð á sviði útivistar- og ævintýraferðamennsku. Mikilvægi endur- og símenntunar í síbreytilegu umhverfi verður seint dregið í efa og er það von aðstandenda ADVENT verkefnisins að fyrirtæki, skólar og einstaklingar geti notið góðs af afurðum verkefnisins.
Síðasti formlegi viðburður ADVENT verkefnisins er lokaráðstefna sem haldin verður í Nýheimum föstudaginn 5. júní nk. Þar verður verkefnið gert upp með heimafólki og góðum gestum. Þá verður einnig rætt um tengingu ævintýraferðaþjónustu og byggðaþróunar og síðast en ekki síst verður fjallað um uppbyggingu náms í ævintýraferðaþjónustu í þátttökulöndunum, Finnlandi, Skotlandi og Íslandi.
Aðstandendur ADVENT verkefnisins hvetja áhugasama til að taka frá tíma og mæta til samtalsins í Nýheimum þann 5. júní n.k. en viðburðurinn verður auglýstur þegar nær dregur.
Nánar má fræðast um ADVENT á heimasíðu verkefnisins: https://adventureedu.eu, á Fésbókarsíðu þess https://www.facebook.com/AdventErasmus/ og á Instagram síðunni adventureedu2020.
Hulda L. Hauksdóttir
verkefnastjóri ADVENT