Opið bréf til bæjarstjórnar Hornafjarðar, Vegagerðarinnar og samgönguráðherra.
Greinarhöfundur er búsettur í Lóni og sækir vinnu á Hornafjörð. Hann ekur daglega vegarspottann frá Lónsafleggjara að Almannaskarðsgöngum á háannatíma, það er, milli klukkan fimm og sex síðdegis. Eins og ykkur er eflaust kunnugt um, kæru sveitungar, er öllu jafna mikil umferð, allt að því öngþveiti, á þeim tíma dags. Meðalhraðinn á umræddum vegarkafla er níutíu kílómetrar á klukkustund, líkt og lög gera ráð fyrir, en í mestu örtröðinni, þegar bílaflotinn hlykkjast einsog járnhreistraður snákur eftir sjávarsíðunni, getur meðalhraðinn lækkað niður í allt að 77 kílómetra hraða, með tilheyrandi tímatilkostnaði, umfram kyrrsetu og almennri frústrasjón.
Núverandi ástand er því í aðra röndina lýðheilsuvandamál.
Greinarhöfundur leggur því til þrjár málefnalegar og hófstilltar tillögur sem ættu að ráða bót að þessu hvimleiða vandamáli.
- Óbrotnar línur verði afmáðar af títtnefndum vegarslóða og hámarkshraði lagður af. Sjái Vegagerðin sér ekki fært um að verða við þeirri ósk leggur greinarhöfundur til að –
- Gamli vegurinn yfir Almannaskarð verði tekin aftur í notkun og umferð veitt um hann á háannatíma til að greiða fyrir traffíkinni.
- Sett verði upp bómuhlið við Lónsafleggjarann og bifreiðum verði hleypt í gegn í hollum. Fjórar bifreiðar í einu á sirka 12-16 mínútna fresti myndi liðka umtalsvert fyrir umferðinni.
Að endingu vill greinarhöfundur senda boltann til Sigurðar Páls Árnasonar, framhaldsskólakennara, en hann hefur mjög sterkar, og leyfi ég mér að fullyrða róttækar skoðanir á fráveitumálum sýslunnar.
Höfundur er búsettur í Lóni