Leikskólinn Sjónarhóll hefur riðið á vaðið og gert tungumálastefnu fyrir leikskólann, fyrst stofnana sveitarfélagsins. Ráðist var í þessa vinnu í haust þegar óvenju margir starfsmenn af erlendum uppruna voru ráðnir til starfa á leikskólann en við það heyrðust ákveðnar gagnrýnisraddir frá ýmsum aðilum. Vissulega eru börnin á leikskólanum á mikilvægu máltökuskeiði en stjórnendur höfðu bara um tvennt að velja, ráða þá umsækjendur sem sóttu um og voru hæfir þrátt fyrir að tala ekki mikla íslensku eða ráða enga og þurfa þá að loka deildum. Fyrri kosturinn var valinn og ákveðið að vinna með málið á jákvæðan hátt. Líta á kosti þess að börn kynnist fjölbreyttri menningu og fjölbreyttum tungumálum og gefa erlendu starfsfólki sem flest tækifæri til að læra íslensku.
Í kjölfar fjölmenningarnámskeiðs sem haldið var 16. ágúst með öllu starfsfólki á fræðslu- og frístundasviði var ákveðið að fyrsta skrefið væri tungumálastefna fyrir leikskólann sem hér birtist. Grunnur tungumálastefnunnar felst í þeirri hugsun að samfélagið sé lykillinn að því að fólk læri íslensku. Það er mikilvægt að meta bæði margbreytileika mannlífsins og fjölbreytta tungumálakunnáttu og líta á hvorttveggja sem auð á sama tíma og við gefum fólki af erlendum uppruna gnægð tækifæra til að læra íslensku.
Auk tungumálastefnunnar er núna hópur starfsmanna á Sjónarhóli sem er af erlendum uppruna á námskeiði sem kallast íslenskuþorp í leikskólum um land allt. Námskeiðið sem er á vegum Menntafléttunnar gengur út á að efla starfsfólkið í íslensku og þá sérstaklega íslensku sem tengist því að starfa á leikskólum. Þetta námskeið stendur í allan vetur.
Þess má að lokum geta að um þessar mundir er um 30% íbúa sveitarfélagsins af erlendum uppruna. Þetta er gríðarlega mikilvægur hópur fyrir okkur Austur-Skaftfellinga og mikilvægt að taka vel á móti honum svo hann ílengist hjá okkur og auðgi samfélagið. Að gefa fólki færi á að læra tungumálið er mikilvægur þáttur um leið og það er líka mikilvægur liður í að vernda íslenskuna. Um þessar mundir er verið að vinna að málstefnu fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð. Málstefnan getur verið grunnur að tungumálastefnum sem stofnanir verða hvattar til að gera teljist þörf á því.
Sveitarfélagið Hornafjörður óskar starfsfólki leikskólans Sjónarhóls til hamingju með tungumálastefnuna.