Safnamál og annað skemmtilegt í Ríki Vatnajökuls

0
443
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Eystrahorn er komið á vefinn og á baksíðunni er auglýsing um að Gamla búð sé til leigu fyrir viðurkennda starfsemi. Ég er dálítið hugsi, enda bara leikmaður, um hvaða hlutverk ég vildi sjá þetta dýrmæta hús okkar innifela. Lengi hef ég undrast og dáðst að hvað íbúar þessarar sýslu urðu að leggja á sig til að komast í kaupstað. Hvort sem farið var austur eða suður. Yfir straumharðar, ískaldar jökulár og vegleysur. Þetta er saga sem mér þætti tímabært á koma á framfæri við gesti og gangandi og Gamla búð er tilvalið húsnæði til þess í öllu tilliti.Hægt væri að nýta nútíma tækni til að ná fram áhrifum af votviðri, stormi,og bara öllu því sem gæti mætt fólki á slíku ferðalagi, sem teldi vikur.

Einnig hefur sú hugmynd komið upp í minn koll að gera jökulánum okkar góð skil og sé ég fyrir mér að menn tækju sig saman skiptu liði og væri tekið myndarlegt vatnssýni úr hverri á tiltekinn dag á sama tíma úr sýslunni allri. Þetta er einfalt að gera og pottþétt væri hægt að fá mannskap í svona verkefni. Síðan má koma vatni úr hverri á í t.d sívalninga gegnsæja þar sem hægt væri að bera saman hvort vatnið væri mismunandi úr hverri á og framburður jarðefna. Merkja vel og tengja við verslunarferðirnar, og smalamennsku sem dæmi. Ég læt þessar hugmyndir koma fyrir ykkar sjórnir kæru lesendur Eystrahorns og gaman væri, ef fleiri en ég hafi framtíðarsýn á safnamál í víðum skilningi og vilji deila með okkur.

                                          Guðrún Ingimundardóttir eftirlaunaþegi