Ríki Vatnajökuls – býður heim í sumar!

0
1009
Mynd: Þorvarður Árnason

Nú er eitt sérstakasta sumar síðari tíma gengið í garð, en eins og alþjóð veit kallaði útbreiðsla corona veirunnar skæðu á verulega breytta ferðahegðun bæði hjá heimamönnum og okkar væntanlegu gestum. Um þó nokkurt högg er að ræða fyrir svæði eins og Sveitarfélagið Hornafjörð, þar sem ferðaþjónusta er ein stærsta atvinnugrein svæðisins og fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar byggja lífsviðurværi sitt á greininni. Til þess að bregðast við breyttum aðstæðum var sett aukið fjármagn í markaðssetningu svæðisins til að kynna fyrir löndum okkar allt það sem ríki Vatnajökuls hefur upp á að bjóða. Langar okkur nú að upplýsa ykkur um stöðu markaðsmála fyrir sumarið í Ríki Vatnajökuls. Markaðsherferðin sem ber yfirskriftina „Ríki Vatnajökuls – býður heim í sumar“ og er unnin er af auglýsingastofunni Sahara, er komin í loftið og lofar góðu. Eins og íbúar hafa eflaust orðið varir við eru falleg myndbönd frá svæðinu farin að dreifast á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #visitvatnajökull, auk þess sem greinar og myndefni birtast á prent- og netmiðlum. Við höfum einnig fengið góða aðila úr fjölmiðlaumhverfinu í heimsókn og sendi útvarpsstöðin K100 m.a. út bæði morgun- og síðdegisþáttinn sinn frá Höfn um liðna helgi.

Sveitarfélagið Hornafjörður á samfélagsmiðlum: #höfnheilsarþér #heimaíhornafirði

Sveitarfélagið okkar hefur upp á fjölmargt að bjóða og hafa ferðaþjónustuaðilar verið ötulir við að kynna starfsemi sína og svæðið í gegnum instragram reikning Ríkis Vatnajökuls. Nú langar okkur að bæta um betur og gefa Íslendingum færi á að skyggnast inn í hvernig lífið er í okkar góða samfélagi. Er því stefnan að bjóða áhugasömum íbúum að taka yfir instagram reikning sveitarfélagsins eina dagstund og segja frá degi í lífi Hornfirðinga. Vonumst við til að íbúar taki vel í þessa hugmynd og verði duglegir að miðla sumrinu í ríki Vatnajökuls með fylgjendum sveitarfélagsins á samfélagsmiðlum.

Langar okkur einnig að benda íbúum á að líta við svæðissíðunni www.visitvatnajokull.is, en hún hefur verið uppfærð mikið í sumar og er m.a. búið að bæta við nýrri og glæsilegri upplýsingasíðu á íslensku. Ef þið vitið um skemmtilega viðburði á svæðinu sem væri gott að koma á framfæri til gesta okkar þá megið þið gjarnan hafa samband við okkur og við komum þeim á framfæri á heimasíðunni.

Endilega hafið samband við okkur starfsmenn í atvinnu- og ferðamálum í netföngin ardis@hornafjordur.is eða thorkell@hornafjordur.is ef þið hafið hafið áhuga á að fóstra instragram reikning sveitarfélagsins í einn dag, eða hafið spurningar varðandi verkefnið.

Árdís Erna Halldórsdóttir
Þorkell Óskar Vignisson