Opinn fundur um Breiðamerkursand

0
1464
Mynd: Þorvarður Árnason

Svæðisráð suðursvæðis Vatnajökuls­þjóðgarðs boðar til kynningar- og hugarflugsfundar um framtíð Breiðamerkursands og Jökulsárlóns í Mánagarði, þriðjudaginn 2. júlí n.k., frá kl. 18:00-22:00. Boðið verður upp á súpu og kaffiveitingar meðan á fundi stendur.
Svæðisráð hefur undanfarna mánuði unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Breiðamerkursand og er fundurinn liður í þeirri vinnu. Á fundinum verður óskað eftir hugmyndum og ábendingum um framtíðarskipan mála á þessu nýja verndarsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, auk þess sem fyrstu hugmyndir svæðisráðs um stjórnunar- og verndaráætlunina verða kynntar og teknar til umræðu. Þá verður greint frá tillögum að nýju deiliskipulagi fyrir þjónustusvæðið við Jökulsárlón sem svæðisráð hefur einnig látið vinna.
Breiðamerkursandur varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði við friðlýsingu svæðisins 25. júlí 2017. Friðlýsingin nær yfir u.þ.b. 2/3 hluta sandsins, samtals um 189 km2 svæði, sem samanstendur af landareign jarðarinnar Fells í Suðursveit sem ríkið keypti i ársbyrjun 2017 og þjóðlendunum um miðbik sandsins (sjá kort).

Kortið sýnir svæðið sem vinnan við stjórnunar- og verndaráætlun nær yfir. Blá lína: Mörk Vatnajökulsþjóðgarðs eftir stækkun 25. júlí 2017. Bleik lína: Þjóðgarðsmörkin fram til 25. júlí 2017.
Kortið sýnir svæðið sem vinnan við stjórnunar- og verndaráætlun nær yfir. Blá lína: Mörk Vatnajökulsþjóðgarðs eftir stækkun 25. júlí 2017. Bleik lína: Þjóðgarðsmörkin fram til 25. júlí 2017.

Sérstaða landsvæðisins er mjög mikil. Það er allt sterklega mótað af framgangi og hopun jökla og einkennist af sérstæðum jökulöldum. Landslagið er mikilfenglegt og óvenjulegt. Ein helsta náttúruperla svæðisins er Jökulsárlón, stærsta og þekktasta jaðarlón á landinu. Breiðárlón er einnig allt innan þjóðgarðsmarka og Fjallsárlón að hluta. Sandurinn afmarkast til norðurs af Breiðamerkurjökli en jökuljaðarinn hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum vegna margvíslegra ævintýraferða, einkum þá jöklagöngur og íshellaskoðun. Búseta á Breiðamerkursandi lagðist endanlega af fyrir rúmri öld vegna framgangs jökla, en sauðfé frá nærliggjandi bæjum gengur þar til beitar.
Stjórnunar- og verndaráætlun er eitt meginstjórntæki þjóðgarðsins og verkfæri til stefnumótunar og ákvarðanatöku. Samkvæmt lögum er það á ábyrgð svæðisráða að koma með tillögur að stjórnunar- og verndaráætlunum. Gert er ráð fyrir að tillögur svæðisráðs verði lagðar fyrir stjórn þjóðgarðsins í upphafi næsta árs. Vinna við gerð tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun er samráðsferli sem felur m.a. í sér viðtöl við hagaðila, rýnihópa, íbúa- og kynningarfundi. Opni fundurinn í Mánagarði er liður í því samráðsferli.
Á fundinum verður fyrst stuttlega gerð grein fyrir vinnuferlinu við gerð stjórnunar- og verndaráætlana og undirbúningi svæðisráðs fram til þessa, því næst verður þátttakendum skipti í vinnuhópa sem munu ræða hugmyndir um áherslur í verndun og nýtingu svæðisins og að lokum mun svæðisráð kynna fyrstu tillögur sínar að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand.
Þeir sem vilja taka þátt í fundinum eru vinsamlegastar beðnir að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið arndis@nyheimar.is eða hringja í síma 662-8281.