Opið hús var í leikskólanum Sjónarhóli 1. nóvember síðastliðinn. Þar gafst gestum kostur á að skoða húsið og spyrja út í starfsemina. Boðið var upp á kaffi og kruðerí í salnum. Starfsfólk var á öllum svæðum í húsinu til að geta sagt frá og sýnt svæðin. Mæting var góð og mættu yfir 100 manns. Starfsfólk var mjög ánægt með daginn, gaman hvað gestir voru jákvæðir og duglegir að spyrja út í leikskólastarfið. Virkilega notaleg og góð stund sem við áttum með gestum okkar.
Leikskólinn er svo lánsamur að hafa fengið gjafir frá fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum og viljum við koma því hér á framfæri hvað við erum virkilega þakklát. Hirðingjarnir gáfu eina milljón kr. til að nota í kaup á leikföngum og mublum í hlutverkaleikinn sem dæmi; sullu-/sandkar, málningatrönur, leikföng, aðstöðu fyrir búninga og efnivið í hlutverkaleikinn og margt fleira. Slysavarnardeildin Framtíðin gaf leikskólanum endurskinsvesti, plástrastatíf og plástra. Foreldrafélagið í leikskólanum gaf útileiktæki sem er stýrishús og er komið í sandkassann. Karlsbrekka ehf. gaf leikskólanum 6 ipad mini og hulstur utan um þá. Húsgagnaval gaf leikskólanum matarsmekki. Einnig hafa einstaklingar komið og gefið hluti sem þeir eru hættir að nota eða komið með efnivið sem við getum nýtt.
Það er svo dásamlegt að vita hvað fólk er að hugsa mikið til okkar. Ég verð að segja að á svona stundu verður maður meyr. Þúsund þakkir fyrir okkur og til hamingju með nýja leikskólann okkar.
Fyrir hönd leikskólans Sjónarhóls,
Maríanna Jónsdóttir, leikskólastjóri.