Róslín Alma Valdemarsdóttir hefur verið ráðin tímabundið til starfa hjá Fræðslunetinu – Símenntun á Suðurlandi og leysir Sædísi Ösp Valdemarsdóttur af á meðan hún er í barneignarleyfi.
Róslín er margmiðlunarfræðingur að mennt frá Tækniskólanum og eins og margir eflaust vita þá býr hún hér á Höfn ásamt unnusta sínum og syni. Við bjóðum Róslín velkomna til starfa. Netfang Róslínar er roslin@fraedslunet.is og beint símanúmer á skrifstofu Fræðslunetsins á Höfn er 560-2039.
Ýmislegt verður í boði hjá Fræðslunetinu á komandi vorönn. Íslenska fyrir erlenda íbúa verður á sínum stað og verða áfangar 2 og 4 kenndir. Hlíf Gylfadóttir hefur séð um kennsluna síðastliðin ár og mun halda því áfram. Einnig er stefnt að því að bjóða upp á íslensku 5 í fjarnámi sem Hlíf mun kenna héðan frá Höfn ef næg þátttaka næst. Við vonumst líka til að ná í hóp í íslensku 2 í Öræfum en Sigrún Sigurgeirsdóttir tók að sér kennslu í íslensku 1 á haustönn. Einnig stendur til að bjóða upp á námskeið í skapandi skrifum sem Soffía Auður Birgisdóttir mun kenna í staðnámi í febrúar hér á Höfn. Námskeiðið verður auglýst nánar síðar.
Á vorönn verða eftirtaldir áfangar á framhaldsskólastigi í boði hjá Fræðslunetinu:
Menntastoðir – stærðfræði á 2. þrepi, íslenska á 2. þrepi (heimildavinna), enska á 1. og 2. þrepi og danska á 2. þrepi.
Félagsliðabrú – enska á 2. þrepi, samskipti og samvinna á 1. þrepi, næringarfræði á 2. þrepi og aðstoð og umönnun á 2. þrepi.
Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú – þroskasálfræði á 3. þrepi, leikur sem náms- og þroskaleið á 2. þrepi og barnabókmenntir á 2. þrepi.
Matartækni í gegnum Menntaskólann í Kópavogi, nánari upplýsingar veitir Sólveig, solveig@fraedslunet.is
Nú þegar eru nokkrir nemendur á austursvæðinu í þessu námi. Í boði er að skrá sig í staka áfanga. Nánari upplýsingar veitir Eydís Katla á eydis@fraedslunet.is eða í síma 560-2030.
Mikil áhersla verður lögð á að bjóða upp á gagnreynd námskeið fyrir Vinnumálastofnun og Virk bæði á íslensku og ensku vegna atvinnuleysis á Suðurlandi sem rekja má til áhrifa Covid-19 á ferðaþjónustu á svæðinu. Raunfærnimat verður á sínum stað á vorönn og verður m.a. raunfærnimat í ferðaþjóni. Í boði er að sitja raunfærnimatið hér á skrifstofu Fræðslunetsins á Höfn og hefur það reynst vel hingað til að nýta tæknina í stað þess að þurfa að gera sér ferð á Selfoss eða til Reykjavíkur.
Fræðslunetið heldur námskeið fyrir fólk með fötlun en einu slíku var að ljúka í síðustu viku en Hulda Laxdal tók að sér að kenna sjálfseflingarnámskeiðið Sjálfsmynd og vellíðan sem vakti lukku hjá þeim sem það sóttu. Fræðslunetið stendur einnig fyrir námskeiðum fyrir ferðaþjónustuaðila sem og önnur fyrirtæki og starfsmenn hafa hingað til verið duglegir að fara í heimsóknir í fyrirtæki en því miður stendur það ekki til boða þessa dagana.
Að lokum minnum við á þrjá náms- og starfsráðgjafa okkar en vegna Covid19 er í boði rafræn ráðgjöf sem hægt er að bóka hjá einni af eftirfarandi: eydis@fraedslunet.is, solveig@fraedslunet.is og sandra@fraedslunet.is
Ertu með hugmynd að námskeiði? Við hjá Fræðslunetinu erum tilbúin að skoða allar uppástungur og sjá hvort af þeim geti orðið.
Hægt er að skrá sig í allt nám á vef Fræðslunetsins – www.fraedslunet.is