Nýtt Þinganes SF-25 kemur til heimahafnar

0
2993
Steinunn siglir inn til Hornafjarðar

Áætlað er að nýja Þinganesið komi til heimahafnar laugardaginn 21. desember. Skipið er smíðað í Vard skipasmíðastöðinni sem staðsett er í Aukra í Noregi.
Þinganesið er sjöunda og síðasta skipið í sjö skipa raðsmíðaverkefni sem fyrirtækin Skinney-Þinganes, Gjögur, Bergur- Huginn og Samherji tóku sameiginlega þátt í.
Þingnes er 29 metra langt og 12 metra breitt togskip. Skipstjóri verður Margeir Guðmundsson og yfirvélstjóri Þórir Kristjánsson.
Steinunn SF-10 sem er systurskip Þinganess kom til heimahafnar á Hornafirði þann 27. nóvember s.l. og er nú verið að setja nýja vinnslulínu um borð í Steinunni í Hafnarfirði.

Eins vinnslulína í bolfiskflotanum

„Þetta hefur staðið lengi yfir og við skrifuðum undir samninginn í desember 2017. Vinnslulínan á millidekkinu er hönnuð í samstarfi við Micro, Völku og Gjögur. Það er áríðandi að vel takist til. Við breyttum líka vinnslulínum í skipunum sem við létum lengja í Póllandi, Skinney og Þóri, sem voru smíðuð í Tævan 2009. Þau fengu samskonar búnað og verður í Steinunni og Þinganesi,“ segir Ásgeir Gunnarsson framkvæmdastjóri veiða.
Bolfiskfloti Skinneyjar-Þinganess sem og skip Gjögurs úr raðsmíðaverkefninu verða því öll með eins vinnslulínu. Ný Steinunn og Þingnes leysa af hólmi eldri skip með sömu nöfnum sem voru smíðuð 1991 og 2000. Ásgeir segir að þetta séu skip sem hafi verið mikið notuð, sérstaklega Steinunn. Gamla Steinunn og Hvanney hafa verið seld til Nesfisks í Garðinum og Þinganes er á söluskrá.

Þinganes í prufu siglingu í Noregi

„Það verður kannski ekki mikil bylting í skipaþróun á 20 árum en það sem vinnst með endurnýjuninni er aukið rekstraröryggi og nýjungarnar felast meðal annars í því að rafmagnsspil er í nýju skipunum sem dregur úr olíunotkun og eru þægilegri í vinnslu. Þá eru tvær aðalvélar í skipunum sem eykur rekstraröryggi ásamt því að skipin eru mjög grunnrist fyrir vikið sem hentar okkur vel út af innsiglingunni. Við höfum líka væntingar um að orkunotkunin fari niður um 10-15%.

Breyttur skipafloti

Eftir heimkomu nýja Þinganess má segja að skipafloti okkar hafi tekið töluverðum breytingum þar sem við munum ekki gera út á net og snurvoðaveiðar á næsta ári. Samhliða þessum breytingum höfum við verið að endurnýja vinnslulínur í Krossey svo áherslan verður meiri á ferskan fisk í framtíðinni.

Ráðgert er að nýja Þinganes haldi til veiða í byrjun mars á næsta ári.