Nýsköpunarverkefni á vegum Náttúrustofu Suðausturlands fékk 8.5 milljóna styrk

0
721
Frá Kirkjubæjarklaustri

Nýlega úthlutaði Loftslagssjóður styrkjum í verkefni ársins 2021. Sjóðnum bárust 158 umsóknir og voru 24 þeirra styrktar eða um 15% umsókna sem sóttu um, 12 nýsköpunarverkefni hlutu styrk og 12 kynningar- og fræðsluverkefni. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum, en hann heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við verkefni sem lúta nýsköpun á sviði loftslagsmála og kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Eitt þeirra nýsköpunarverkefna sem fékk styrkúthlutun var verkefnið Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi – samstarfsverkefni um vöktun á völdum landgerðum. Umsækjandi verkefnisins er Náttúrustofa Suðausturlands og meðumsækjandi er Landgræðslan. Samstarfsaðilar verkefnisins eru: Ólafur S. Andrésson sem hefur undanfarin misseri hannað og þróað smíði á smátæki sem mælir losun CO2 úr jarðvegi, sveitarfélagið Skaftárhreppur, Mor-nefndin -samstarfsnefnd Skaftárhrepps, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Rannveig Ólafsdóttir, verkefnisstjóri verkefnisins frá Náttúrustofu Suðausturlands.

Verkefnið er unnið til eins árs og verkefnis­stjóri er Rannveig Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands, búsett og starfandi í Skaftárhreppi. Markmið verkefnisins er að mæla kolefnisforða ásamt CO2 flæði úr þurrlendisjarðvegi valinna landgerða í Skaftárhreppi og þannig er hægt að áætla heildarlosun eða bindingu úr þessum vistgerðum með nokkuð góðri vissu.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði fljótt eftir að íslensk stjórnvöld gáfu út aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum. Þar eru sett markmið um að minnsta kosti 40% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, og kolefnishlutleysi árið 2040. Jafnframt er stefnt á gríðarlega aukna bindingu kolefnis vegna landnotkunar eða um +515% aukningu frá 2005 til 2030. Landnotkun (e.Land Use, Land Use Change and Forestry, skammstafað LULUCF) er einn stærsti losunarþáttur gróðurhúsalofttegunda sem standa þarf skil á gagnvart Parísarsamningnum en rekja má um fjórðung allrar losunar á heimsvísu til landnotkunar. Þessi þáttur er jafnvel enn mikilvægari á Íslandi, þar sem um 65% losun gróðurhúsalofttegunda á landsvísu er rakin til landnotkunar og um 86% losunar fyrir Suðurland. Losunarbókhald vegna landnotkunar og skógræktar er skemmra á veg komið en fyrir aðrar uppsprettur eins og til dæmis losun frá jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum enda er um flókna vistfræðilega ferla að ræða og mikinn breytileika eftir aðstæðum (Verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum 2020).

Á myndinni eru talið frá vinstri; Rannveig Ólafsdóttir frá Náttúrustofu Suðausturlands, Elín Erla Káradóttir sumarstarfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands og Jóhann Þórsson frá Landgræðslunni. Verið er að setja niður mælirör í jarðveginn.

Því þarf að gera stórauknar kröfur um mælingar á losun CO2 frá jarðvegi til að hafa árreiðanlegar upplýsingar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Fjölga þarf mælingum og í fjölbreyttari landgerðum en gert hefur verið hingað til.
Verkefnið hefur fjárfest í alþjóðlega vottuðum dýrum mælibúnaði frá PP systems sem mælir bæði bindingu og losun CO2 úr jarðvegi. Hefur slíkur búnaður verið prófaður og notaður með góðum árangri hjá Landgræðslunni. Samhliða mælingum á CO2 úr jarðvegi verður notast við nýjan íslenskan tækjabúnað sem hefur verið þróaður með styrk frá Loftslagssjóði á síðasta ári. Íslenski ódýrari búnaðurinn er talinn tilbúinn til almennrar notkunar en hefur ekki verið prófaður við skipulagðar mælingar eða staðlaður með annarskonar mælingum. Hér gefst því kostur á að prófa fýsileika þessa nýja búnaðar og fá samanburð við mælingar gerðar með viðurkenndum búnaði.
Markmiðið er að gögn og niðurstöður sem safnast með verkefninu nýtist m.a. sveitarfélaginu Skaftárhreppi til að ná árangri í loftslagsmálum í gegnum skipulagsgerð. Skaftárhreppur er annað landstærsta sveitarfélag landsins og um þessar mundir er verið að vinna í nýju aðalskipulagi sem tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og eru þar aðgerðir í loftslagsmálum sérstaklega dregnar fram. Að draga úr kolefnislosun og auka kolefnisbindingu hjá sveitarfélagi sem byggir að stórum hluta afkomu sína á hefðbundnum landbúnaði er mikil áskorun. Með þeim niðurstöðum sem fást úr verkefninu verða til gögn um kolefnisbúskap landflokka og þannig hægt að kortleggja hvar jarðvegur er að tapa kolefni og hvar það bindst. Með þær niðurstöður er hægt að hefja samræður um hvar best væri að auka útbreiðslu náttúruskóga, endurheimta votlendi, hefja skógrækt, friða fyrir beit o.s.frv.Niðurstöður fyrir hvern undirflokk sem mældur er mun einnig nýtast öðrum sveitarfélögum á landsvísu eða landeigendum með sambærilegar vistgerðir til að meta kolefnisbúskap sinna landgerða og gera áætlanir fyrir breytta landnotkun með það að markmiði að draga úr losun eða auka bindingu.
Síðast en ekki síst skapast þekking og störf í heimabyggð og reynsla fæst í samstarfi ólíkra aðila um vöktunarmælingar á kolefnisforða lands og breytingum þar á, sem myndi nýtast til að setja upp og þróa sambærilegt samstarf á landsvísu. Verður verkefnið liður í mikilvægu framlagi til að afla betri þekkingar á losun CO2 frá mismunandi landgerðum á Íslandi sem bætir loftslagsbókhald Íslands.

Aðstandendur og starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands eru ánægðir og þakklátir fyrir styrkinn sem fékkst í þetta verkefni.

Rannveig Ólafsdóttir og Kristín Hermannsdóttir