Nýsköpun á mannamáli

0
1407
Útskriftarhópur Brautargengi námskeiðs á Austurlandi 2016

Hvað gerir Nýsköpunarmiðstöð Íslands?

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Á einum stað er hægt að leita aðstoðar um allt sem viðkemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja. Hægt er að leita til sérfræðinga á ýmsum sviðum um leiðsögn og upplýsingar varðandi mismunandi þætti hugmynda, reksturs og samstarf erlendis. Þar að auki er þessi þjónusta ókeypis.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands sendi nýlega verkefnastjóra á Djúpavog til tveggja ára til að sinna bæði afmörkuðum verkefnum sem og skoða ný tækifæri í samstarfi við stoðkerfið þar. Það má með sanni segja að á þessum tveimur árum voru ófá símtöl tekin og heimsóknir farnar til einstaklinga og fyrirtækja á suðaustur- og austurlandi þar sem samtal átti sér stað varðandi hugmyndir og fyrirhugaðar breytingar. Einnig voru haldin námskeið bæði sem sérsniðin eru að konum sem og fjölmörg örnámskeið allt frá Höfn í Hornafirði að Vopnafirði.

Ræs!

Fyrsta verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Djúpavogi var Ræsing á Höfn í Hornafirði. Ræsing er átaksverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í atvinnuuppbyggingu. Verkefnið hefur það aðalmarkmið að efla nýsköpun á landsbyggðinni með öflugu stuðningsverkefni fyrir nýjar atvinnuskapandi hugmyndir. Tvö önnur ræsingar verkefni fóru fram, annað á Egilsstöðum og hitt á Seyðisfirði.

Ratsjá Austurland

Ratsjá Austurland var hleypt af stokkunum 2017 og er það verkefni sjálfstætt framhald af Ratsjár verkefni sem hófst 2016. Ratsjáin er sex vikna svæðisbundið þróunar- og nýsköpunarverkefni fyrir stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja sem vilja gera enn betur. Undir leiðsögn sérfræðinga kynnast þátttakendur verkfærum sem efla þá sem stjórnendur, spegla sig í reynslu annarra fyrirtækja og efla tengslanetið. Tók Austurland af skarið með góðum árangri og nú er verkefnið í gangi á Vestfjörðum. Stefnt verður að því að kynna verkefnið fyrir öllum fjórum landshlutunum.

Nýsköpun er tæki til vaxtar í samfélögum

Mikilvægi nýsköpunnar er gríðarlegt þegar kemur að uppbyggingu samfélags. En hvað er nýsköpun? Hin almenna skilgreining nýsköpunnar er sú að nýsköpun sé „að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar.“ (Andri Heiðar Kristinsson. „Hvað er nýsköpun?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2007. Sótt 26. apríl 2018.) Þessi skilgreining á þá jafnt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar. Samfélög sem nýta nýsköpun og sköpunarkraft sem hluta af heildaráætlun ná oft að leysa rótgróin og óleyst vandamál eins og talað er um meðal annars í skýrslunni „Innovation and the City“ sem unnin var af Center for an Urban future og NYU Wagner. Nýsköpunarhugsun kallar fram sköpunarkraftinn og sköpunarkraftur eykur á nýsköpun. Um einmitt þetta atriði meðal annars tala John Bielenberg, Mike Burn, Greg Galle og Elizabeth Evitts Dickinson í bókinni „Think wrong“ Þar er meðal annars talað um að til þess að ná róttækum breytingum fram verður vaninn að víkja. Við venjumst því að B tekur við af A og að stóll þurfi að hafa 4 lappir. Hugmyndafræðin „think wrong“ snýr að því að fara út fyrir kassann, út af vananum, hugsa róttækt og koma með jafnvel fáránlegar lausnir með það að markmiði að leysa vandamál; komast að því að X gæti mögulega tekið við af A.
Nýsköpun er því ekki bara áhugavert orð sem gáfulegt er að nota í ræðu og riti heldur nauðsynlegt fyrirbæri til þess að tannhjól samfélags snúist.

Katrín Jónsdóttir verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands