Nýir útgefendur að Eystrahorni

0
1630
Tjörvi og Guðrún ásamt dætrum sínum þrem

Fyrir um 8 árum var útgáfa Eystrahorns endurvakin af Alberti Eymundssyni eftir hvatningu og áskorun frá fjöl­­­­mörgum íbúum Sveitar­félagsins Hornarfjarðar. Eystra­horn er mikilvægur miðill fyrir samfélagið og nú er komið að nýjum kafla í útgáfu blaðsins. Albert hefur ákveðið að draga sig í hlé eftir vel unnið starf í þágu Eystrahorns og Hornafjarðar og höfum við hjónin, Tjörvi Óskarsson og Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir, tekið við útgáf­unni en Tjörvi hefur séð um umbrotið á blaðinu undanfarið eitt og hálft ár og mun taka við ritstjórn og rekstri blaðsins ásamt því að sinna umbrotinu áfram. Guðrún mun fyrst og fremst vera til aðstoðar við útgáfuna en að öðru leyti sinna störfum á öðrum vettvangi.

Stuðningur

Íbúar, fyrirtæki og auglýsendur hafa stutt vel við útgáfuna og vonumst við til að sá stuðningur sem blaðið hefur fengið verði jafn góður og raun hefur verið. Vildaráskrifendur þurfa nú að uppfæra greiðsluupplýsingar vegna vildaráskriftar sinnar og er tilkynning þess efnis í blaðinu. Hvetjum við alla sem vilja styðja við útgáfuna að gerast vildaráskrifendur eða að auglýsa í blaðinu.

Ný heimasíða

Eystrahorn mun halda áfram að koma út vikulega bæði í prenti sem og á internetinu. En nýju fólki fylgja alltaf breytingar og vonumst við til að geta byggt blaðið upp. Fyrsta verkefnið tengist internetinu og samfélagsmiðlunum. Við höfum verið að vinna hörðum höndum að nýrri heimasíðu fyrir blaðið, www.eystrahorn.is. Heimasíðan er komin vel á veg og mun opna innan skamms, þar munu greinar og annað efni úr blaðinu birtast og þannig verður auðvelt að deila efni úr því. Heimasíðan verður einnig kjörin staður fyrir fyrirtæki að auglýsa starfsemi sína.
Hvetjum við lesendur til að fylgja Eystrahorni á samfélagsmiðlunum, Facebook og Instagram.

Um okkur

Við fjölskyldan fluttum hingað fyrir um tveimur árum síðan þegar Guðrún hóf að vinna í Nýheimum þar sem hún starfar enn að ýmsum byggðaþróunar- og nýsköpunarverkefnum. Tjörvi Óskarsson er margmiðlunar­fræðingur, sérhæfður í þrívíddar­hönnun. Hann er alinn upp í Hveragerði og Reykjavík en á ættir sínar að rekja m.a. til Djúpavogs þar sem hann varði mörgum sumrum hjá föður sínum, Óskari Steingrímssyni og á þar nokkuð marga ættingja. Guðrún Ásdís er Hornfirðingum mörgum kunn, en hún var alin hér upp til 16 ára aldurs og er dóttir Sturlaugs Þosteinssonar og Helgu Lilju Pálsdóttur. Við hjónin eigum þrjár dætur, Vöku Sif (9 ára), Freyju Dís (7 ára) og Steinunni Lilju (2 ára).

Við þökkum Alberti kærlega fyrir gott samstarf og hlökkum til að takast á við þetta skemmtilega verkefni.

Tjörvi Óskarsson og
Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir