Nú á dögunum opnaði ný verslun, Berg Spor, á Hafnarbraut þar sem Dórubúð var áður til húsa. Hjónin Erla Berglind og Sigurbjörn Árnason standa að baki verslunarinnar. Þeim fannst nauðsynlega vanta góða fataverslun eftir að Dórubúð lokaði og ákváðu að taka málin í sínar hendur og opna verslun. Erla hefur undanfarin 6 ár verið að sauma merkingar í föt, handklæði, húfur og fleira og verið að þjónusta fólk um allt land. Var hún í þann tíma með alla aðstöðuna heim hjá sér.
“Það er gott að komast með saumavélina að heiman, maður endaði oftar en ekki að vinna á kvöldin þegar krakkarnir voru sofnaðir” segir Erla ánægð með breytinguna.
Verslunin var opnuði formlega þann 26. nóvember og gengu framkvæmdir vel að sögn Erlu.
„Þetta er búið að ganga mjög vel. Fjölskylda og vinir hafa verið dugleg að hjálpa okkur, sem hefur verið ómetanlegt. Einnig Halldóra og Einar sem voru með Dórubúð, en þau hafa stutt vel við okkur í þessu öllu.“ segir Erla.
Verslunin verður með föt, skó, útivistarvörur, náttföt, garn, lopa og flest allt sem fylgir því ásamt því að merkja flíkur og fleira.
„Við höfum gert samninga við Jako, 66° Norður, Freistingarsjoppuna og marga fleiri. Einnig er ætlunin að vera með veiðivörur, við gerum ráð fyrir að þær komi á nýja árinu ásamt fleiri spennandi vörum.“
Handraðinn hefur líka flutt sig og sínar vörur yfir til Erlu og finnst henni æðislegt að deila með þeim húsnæði. Það má segja að það sé komið mikið líf í húsnæðið við Hafnarbraut 34, en í byrjun hausts var veitingastaðurinn ÚPS opnaður í sama húsnæði.
„Við hlökkum til að vera þátttakendur í atvinnulífinu hér í Hornafirði, og einnig hlökkum við til að sjá Hornfirðinga koma til okkar á Hafnarbrautina. Við þökkum kærlega góðu móttökurnar sem við fengum á opnunardaginn okkar þann 26. nóvember.“