Ný Gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs

0
387
default

Á fundi þann 28. nóvember 2022, afgreiddi stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs tillögur um fyrirkomulag gjaldtöku á árinu 2023. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur nú sett reglugerð á grundvelli þessara tillagna. Í þessari stuttu yfirferð verður gerð grein fyrir því hvaða áhrif ný gjaldskrá hefur á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.
Frá því um haustið 2017 hafa verið innheimt svæðisgjöld í Skaftafelli en sú gjaldtaka felur í sér aðferð við tekjuöflun sem ætlað er að standa að hluta undir þjónustu sem gestir eiga kost á í Vatnajökulsþjóðgarði. Þjónusta sem gestir fá aðgang að með greiðslu svæðisgjalds felst meðal annars í bílastæðum, þjónustu í gestastofu, salerisaðstöðu, fræðslu og leiðbeiningum frá landvörðum, aðgangi að gönguleiðum og þátttöku í fræðslugöngum með leiðsögn landvarða þegar þær eru á dagskrá. Frá og með 1. júní 2023. verður sambærilegt svæðisgjald innheimt við Jökulsárlón
Samkvæmt nýrri gjaldskrá þjóðgarðsins hækka svæðisgjöldin úr 750 kr. í 1.000 kr., miðað við fólksbifreið, fimm manna og færri. Hækkunin í Skaftafelli tekur gildi þann 30. mars n.k., en gjaldtaka við Jökulsárlón hefst eins og áður segir þann 1. júní n.k.
Sérstök athygli er vakin á því ákvæði reglugerðarinnar að veittur er 50% afsláttur af svæðisgjaldi ef annað þjónustusvæði hefur áður verið heimsótt innan sólarhringsins og fullt gjald greitt þar.
Tjaldstæðisgjöld eru ekki innifalin í svæðisgjaldi. Fyrirkomulagi gjaldtöku á tjaldsvæðum þjóðgarðsins breyttist úr því að miðast við fjölda gistigesta yfir í gjald fyrir tjaldstæði þar sem allt að sex manns mega gista. Fjárhæðir þessara tjaldstæðisgjalda koma fram í reglugerðinni.

Hrafnhildur Ævarsdóttir
Steinunn Hödd Harðardóttir
Þjóðgarðsverðir á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs