Nám í hestamennsku

0
470

Nýlega gerði Framhaldsskólinn FAS og Hestamannafélagið Hornfirðingur með sér samstarfssamning. Framhaldsskólinn FAS á Höfn býður uppá nám í hestamennsku sem hefst í haust með einum bóklegum áfanga. Á vorönn (eftir áramót) 2022 verða síðan kenndir þrír áfangar, einn bóklegur og tveir verklegir. Verklega kennslan verður að mestu í reiðhöllinni við Stekkhól. Námið í hestamennsku er alls 20 einingar. Hér er um tímamótasamning að ræða því þetta er í fyrsta skipti sem FAS býður upp á formlegt framhaldsskólanám í hestamennsku. Námið getur nýst eitt og sér eða sem hluti af námi á framhaldsskólabraut og einnig sem hluti af námi til stúdentsprófs.
Þeir sem hyggja á nám í hestamennsku þurfa að taka alla fjóra áfangana. Þá þurfa nemendur að útvega sér hest og reiðtygi fyrir verklega námið.
Bóklegir áfangar verða skipulagðir sem fjarnám en verklegt nám verður kennt í lotum. Í haust í bóklegaþætti námsins verður farið í sögu og uppruna íslenska hestsins, fóðurfræði, heilsufræði, reiðtygi og gangtegundir á 1.þrepi framhaldsskóla.

Skráningargjald fyrir hvora önn er 6000 kr. Innifalið kennsla og aðgangur að reiðhöllinni við Stekkhól.
Þetta er nám fyrir fólk 16 ára og eldri. Hvetjum hestamenn til að koma í endurmenntun, skráning í námið er á fas.is.