Minningargrein- Ingibjörg Zophoníasdóttir

0
665

Ingibjörg Zophoníasdóttir f. á Hóli í Svarfaðardal 22.8. 1923. Hún lést á dvalarheimilinu Skjólgarði á Höfn 27. feb. sl. 99 ára að aldri. Útför hennar fór fram frá Kálfafellsstaðarkirkju 11. mars sl. Foreldrar Ingibjargar voru Súsanna Guðmundsdóttir f. 6.2. 1884 á Óslandi í Óslandshlíð í Skagafirði, d. 15.6. 1980 og Zophonías Jónsson, f. 11.2. 1894 á Hóli í Svarfaðardal, d. 29.9. 1991. Systkini Ingibjargar sem komust til fullorðinsára voru: Jónmundur, Friðbjörn Adolf og Oddný Jóhanna.

Foreldrar Ingibjargar stunduðu búskap á Hóli í Svarfaðardal þar sem hún ólst upp og fékkst við hvers kyns sveitastörf og hlaut hefðbundna barnaskólamenntun. Þá stundaði hún nám í Húsmæðraskólanum á Blönduósi veturinn 1941-42.
Eiginmaður hennar var Torfi Steinþórsson f. 1.4. 1915, d. 17.4. 2001 sem kom farkennari í Svarfaðardal og fluttu þau í Suðursveit vorið 1945. Ingibjörg og Torfi eignuðust 10 börn, fjölskyldur þeirra og afkomendur eru:
1) Torfhildur Hólm, f. 1945, eiginmaður hennar er Þorbergur Örn Bjarnason og eiga 6 börn og 42 barnabörn og barnabarnabörn.
2) Steinþór, f. 1948, eiginkona hans er Ólöf Anna Guðmundsdóttir og eiga 3 börn og 4 barnabörn.
3) Drengur, f. 27. apríl 1950, d. 28. apríl 1950.
4) Fjölnir f. 1952, eiginkona hans er Þorbjörg Arnórsdóttir og eiga 4 syni og 6 barnabörn.
5) Steinunn, f. 1952, eiginmaður hennar er Björn Magnús Magnússon og eiga 2 börn og barnabörnin eru 4.
6) Þórbergur, f. 1954. Börn hans eru 9 og barnabörn og barnabarnabörn eru 27.
7) Zophonías Heiðar, f. 1956, eiginkona hans er Guðrún Ingólfsdóttir og eiga 4 börn og 11 barnabörn.
8) Súsanna Björk, f. 1960, eiginmaður hennar er Ásmundur Þórir Ólafsson og eiga 3 börn og 6 barnabörn.
9) Margrét, f. 1961, sambýlismaður hennar er Jón Hrafn Guðjónsson og eiga 4 börn og 6 barnabörn.
10) Þórgunnur, f. 1965, eiginmaður hennar er Ásgrímur Ingólfsson og eiga 3 börn og 3 barnabörn.

Afkomendur Ingibjargar og Torfa eru orðnir 134, bónus börnin 24 og með tengdabörnum telur fjölskyldan 210 manns.

Við flutning þeirra í Suðursveit var Torfi nýráðinn kennari og skólastjóri við Hrollaugsstaðaskóla sem var heimavistarskóli og þá enn í byggingu. Frá 1948 til 1966 dvöldu þau í Hrollaugsstöðum á veturna en á Hala á sumrum og aðstoðuðu við bústörfin hjá tengdaforeldrum Ingibjargar, Steinþóri og Steinunni sem bjuggu á Hala. Frá haustinu 1961 og fram til 1966 bjó elsta dóttirin, Torfhildur Hólm, með Þorbergi eiginmanni sínum og elstu börnum þeirra á Hala. Eftir að þau fluttu búferlum að Gerði sumarið 1966 dvaldi Ingibjörg allt árið á Hala og sá að miklu leyti um öll bústörf þar næstu árin uns synirnir Steinþór og Fjölnir tóku við búsforráðum á Hala ásamt eiginkonum sínum upp úr 1970.

Ingibjörg átti sér mörg áhugamál og tók virkan þátt í félagsmálum eins og tíminn leyfði. Hún var starfssöm kona og það reyndi á að koma 9 börnum á legg og sjá um heimili og bústörf að auki. Hún stóð ásamt öðrum konum að stofnun Kvenfélagsins Óskar í Suðursveit 1946 og var formaður þess í 25 ár. Hún tók þátt í starfi Sambands austur-skaftfellskra kvenna og sat fjölda funda sambandsins. Ingibjörg var í stjórn Orlofssjóðs húsmæðra í Austur-Skaftafellssýslu um árabil. Þá var hún formaður sóknarnefndar Kálfafellsstaðarsóknar í fjölda ára og tók einnig virkan þátt í starfi ungmennafélagsins Vísis í Suðursveit. Almennt var hún boðin og búin til þess að hlaupa undir bagga þar sem þörf var á hjálpandi hönd og þar á meðal við rekstur heimavistarinnar við Hrollaugsstaðaskóla auk þess sem hún kenndi handavinnu þar í mörg ár.

Ingibjörg fylgdist vel með uppvexti og velferð afkomenda sinna alveg til síðasta dags og sýndi því áhuga sem fólkið hennar var að fást við. Síðast brosið hennar á banalegunni var þegar hún frétti að von væri á tveimur börnum í fjölskylduna næsta sumar, langömmu- og langalangömmubarni.

Þegar Torfi lést 2001 höfðu þau fest kaup á íbúð í íbúðum aldraðra í Ekru á Höfn. Þangað fluttist Ingibjörg það haust og dvaldi þar að vetrinum en á Hala á sumrin meðan heilsan leyfði. Hún átti heimili í Ekru í tæp 19 ár en flutti á Hjúkrunarheimilið Skjólgarð í ársbyrjun 2020. Þar átti hún góða dvöl sem hún var afskaplega ánægð með og þakklát fyrir þá umönnun og aðstoð sem hún naut þar.

Fjölskylda Ingibjargar færir starfsfólki og dvalargestum á Skjólgarði þakkir fyrir allan hlýhug og velvild sem hún varð aðnjótandi þar síðustu æviárin.