Á tímum sem þessum þar sem allar líkur eru á því að eldsumbrot séu að hefjast á Reykjanesskaganum (ef þau eru ekki hafin þegar þessi grein birtist) þurfum við að huga sérstaklega að flugsamgöngum til og frá landinu. Það er gríðarlega mikilvægt að flugvellir á landsbyggðinni verði efldir. Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllur hafa verið efldir síðustu ár en ekki hefur það sama verið upp á teningnum á Hornafjarðarflugvelli. Þar hefur verið stöðugt dregið úr þeirri þjónustu sem hægt er að sækja, sem skýtur skökku við þegar verið er að efla landsbyggðina. Hornafjarðarflugvöllur gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í þeirri uppbyggingu sem getur orðið á næstu árum í kringum Hornafjörð, hann er því ein af lífæðum samfélagsins í kringum Hornafjörð.
Opna aftur á millilandaflug og breikka flugbrautina
Nú er svo komið að verið er að setja upp ný aðflugsljós og í leiðinni að færa þau á vellinu með þeim afleiðingum að flugbrautin þrengist til muna. Við þessa þrengingu er ekki lengur möguleiki á því að stærri vélar lendi á vellinum og jafnvel mun áætlunarflug raskast yfir vetrartímann ef vindur og hálka eru á brautinni. Það er ámælisvert að Ísavía ríkisrekið fyrirtæki sé að draga úr þeirri þjónustu sem hægt var að fá á flugvellinum með því að færa aðflugsljós og þrengja með því flugbrautina, það kemur í veg fyrir uppbyggingu til framtíðar og fer gegn vilja Hornfirðinga og þingmanna Sjálfstæðisflokks sem hafa lagt það til að gera völlinn aftur að millilandaflugvelli fyrir litlar og meðalstórar vélar. Af hverju stoppar samgöngumálaráðherra ekki strax þessar framkvæmdir ? Sér í lagi vegna væntanlegra eldsumbrota. Við erum með eina einfalda tillögu til samgöngumálaráðherra og hún er að gera Hornafjarðarflugvöll strax að millilandaflugvelli aftur en því hlutverki þjónaði hann í mörg ár. Það að gera hann að millilandaflugvelli er ekki flókið. Búið er að setja undirlag fyrir breiðari flugbraut sem aðeins á eftir að malbika. Það er stór flugstöð við flugvöllinn sem auðvelt er að hólfa niður þannig að hún geti þjónað bæði innanlandsflug og millilandaflug. Þessi ákvörðun að skerða möguleika Hornfirðinga til framtíðar með því að þrengja enn frekar að Hornafjarðarflugvelli er algerlega óskiljanlega.
Hornafjörður landfræðilega hagkvæmur
Gaman er að rifja það upp að einn merkasti atburður í flugsögu Íslands var á Hornafirði þegar Eric Nelson flaug til Hornafjarðar 2. ágúst 1924. Flugið markaði gríðarleg tímamót fyrir Hornfirðinga, Íslendinga og í raun heimsbyggðina alla því með afreki sínu var Nelson búinn að greiða leiðina milli Íslands og Evrópu fyrstur manna. Það er ekki tilviljun að Nelson valdi Hornafjörð sem viðkomustað sinn enda er styst til Hornafjarðar þegar flogið er frá Evrópu. Með því að opna Hornafjarðarflugvöll sem millilandavöll aftur gætum við því minnkað kolefnisfótspor frá flugi. Á Hornafirði eru gríðarlega góð skilyrði til flugs og oftast er flugfært þangað því fjöll eru engin fyrirstaða. Vonandi mun samgöngumálaráðherra snúa þessari ákvörðun að færa aðflugsljós á Hornafjarðarflugvelli og opna hann strax sem millilandavöll.
Róbert Matthíasson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks