Eystrahorn hafði samband við það kraftmikla unga fólk sem stendur að veitingastaðnum og leirvinnustofunni ÚPS en þau eru í óða önn að leggja lokahönd á staðinn og vonast til að geta opnað dyr sínar fyrir Hornfirðingum og gestum á allra næstu dögum, við báðum þau um að segja okkur aðeins frá þessari hugmynd sinni.
Í júní 2018 voru Birna og Toggi komin heim á Hornafjörð eftir að hafa dvalið í Reykjavík mánuðinn á undan, upptekin við að eignast börn. “Einhvern eftirmiðdaginn, á meðan litlu stelpurnar sváfu og stóra stelpan var úti að leika sér fengum við hugdettu. Eitt símtal við Elías og við ákváðum að við þyrftum að opna saman nýjan veitingastað og bar í þéttbýlinu á Höfn.”
Spólum rúmt ár fram í tímann. “Rúmt ár af hugmyndavinnu og leit að hinu fullkomna húsnæði að baki. Allskonar vonbrigði, nær-uppgjafir og svartsýni – en studd áfram af okkar besta fólki gáfumst við ekki upp og loksins fóru hlutirnir að gerast.
Í stuttu máli skoðuðum við og keyptum gömlu efnalaugina. Hafnarbraut 34 – besta húsið í bænum, á besta staðnum í bænum, af frábæru fólki sem sannarlega hefur reynst okkur betri en enginn.
Hugmyndin fór að taka á sig endanlega mynd. Úps fór að verða til.
Af hverju Úps ? Lífið er bara stundum þannig að áður en þú veist af er hugmynd sem verður til í spjalli bestu vina, þrátt fyrir að vera frekar framúrstefnuleg, einhvern veginn bara að raunveruleika. Og þú veist eiginlega ekki alveg hvað gerðist.
Úps ! Allt í einu vorum við farin að saga hurðagöt og glugga og smíða veggi. Við fórum oft fram úr okkur eftir að hafa hugsað: hversu flókið getur þetta verið?. Stundum stóðum við og klóruðum okkur í höfðinu – “hvað nú?“ Lausnin var alltaf innan seilingar. Það kemur nefnilega svo vel í ljós hvað það er gott að búa í svona sveitarfélagi eins og okkar þegar á reynir. Hvert sem við leituðum var fólk boðið og búið til þess að veita okkur góð ráð og hjálp. Sumir voru óneitanlega oftar spurðir og meira en aðrir (Takk Brói). Þegar þetta er skrifað er smotterí eftir og þó- það er nefnilega kúnst að reka smiðshöggið á verkið.
Úps verður veitingastaður sem á engan sinn líka í sveitarfélaginu Hornafirði og þótt víðar væri leitað. Úps verður veitingastaður með hóflegri álagningu, þar sem matur og drykkur kostar það sem hann þarf að kosta. Á Úps verður lögð sérstök áhersla á handverksbjór, fyrsta flokks kaffi og fjölbreyttan mat með áherslu á þarfir grænkera. Í daglegum rekstri verður lögð áhersla á samfélagslega ábyrg innkaup og nær ruslfrían rekstur þar sem allt er endurunnið og litlu hent.
Við hönnun á staðnum ákváðum við að leggja höfuðáherslu á endurnýtingu á byggingarefni og húsgögnum. Okkur langaði að endurnýta efni sem aðrir hafa hent, finna gömlum hlutum nýjan tilgang og nýta til fulls allt það byggingarefni sem var keypt nýtt.
Ásamt því að vera veitingastaður og bjórbar er Úps leirvinnustofa og gallerí. Þar er unnin leir og leirlist undir merkjum Endemi sem seld verður á staðnum. Stór hluti borðbúnaðar okkar er búinn til á leirvinnustofunni og er því án hliðstæðu – heyr á endemi?
Tenging við nærumhverfið og samfélagið er okkur á Úps mjög mikilvæg. Til þess að hjálpa til við að skipa staðnum sess í daglegu lífi okkar Hornfirðinga ætlum við með haustinu að koma á legg ýmiskonar klúbba- og hópastarfsemi. Það vantar sannarlega ekki hugmyndirnar, en meðal þeirra eru hlaupa- og hjólaklúbbur. Bjórklúbbur og bruggklúbbur. Ásamt hefðbundinni starfsemi langar okkur að nýta rými veitingastaðarins undir allskyns námskeiða- og fundahald hvort sem er að okkar eða ykkar frumkvæði.
Við erum alveg viss um (eða allavega vonum innilega) að þið séuð svolítið spennt og að þið kíkið til okkar í kaffi, takkó, bjór og spjall við tækifæri. Eitt er víst – við tökum vel á móti öllum og gerum okkar allra besta til þess að þetta ævintýri endist okkur og ykkur sem lengst.
E.s. Við lofum að opna á allra næstu dögum.
Fh. hönd Úps:
Birna Jódís Magnúsdóttir, Elías Tjörvi Halldórsson & Þorgrímur Tjörvi Halldórsson