Ces têtes de morue et ces queues de subbu! Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á þeim blótsyrðum sem hér eru á frönsku. Ég er bara svo miður mín að ég víbra enn að innan sem utan og þar sem ég er heldri kona þá get ég ekki látið það eftir mér að setja á íslenska tungu blótsyrðin sem vella um í hjarta mér! Augu mín eru ennþá mjög sár eftir að hafa litið augum þá hörmung sem ég og vinur minn urðum vitni að. Ég vissi ekki að hér á Höfn væri fólk sem myndi búa á ruslahaugum! Ég vissi ekki einu sinni að hér innanbæjar væru þvílíkir ruslahaugar! Ég man samt eftir frétt á Rúv sem fjallaði um að Hornfirðingar væru svo miklar subbur og bjánar að þeir hentu hverju sem væri í Fjárhúsavík þar sem einungis ætti að henda garðúrgangi. Þetta var svo mikil hneisa að Fjárhúsavíkinni var lokað! Hvað er þá að gerast í Óslandinu? Þar vex einn sá stærsti ruslahaugur sveitarfélagsins og ekki er verið að flokka úrgang þar. Hvernig má það vera að þetta er látið viðgangast? Ég sé ekkert að því að fyrirtæki séu með svæði þar sem þeir geta verið með tæki, tól, hráefni og fleira, en það hljóta að vera einhverjar reglur varðandi umgengni? Mér finnst, ef þetta er eðlileg þróun að hægt sé að búa til ,,einka“ ruslahauga þar sem fólki hentar, að sveitarfélagið fari fram á það að eigendur hauganna girði umhverfis þá! Þessi argasti subbuskapur þarf ekki að vera sýnilegur gestum og gangandi! Óslandið bæði fyrir ofan og neðan Óslandsveg eru svæði þar sem heimamenn, brottfluttir Hornfirðingar og ferðamenn hafa gaman af að þvælast um, skoða og njóta útivistar.
Málfríður