Málfríður malar

0
193

Nei, nú er sko komið nóg og er bikar minn orðinn svo barmafullur að upp úr honum flæðir. Ég verð því að tjá mig aðeins um sorpmál sveitarfélagsins. Vegna ,,vitundarvakningar” í sorpmálum í sveitarfélaginu á að bæta við okkur enn einu plastskrímslinu í innkeyrsluna eða upp við húsvegg öllum til ama og til lýtis við ásýnd fasteigna. Þarf ég virkilega að fara að rífa upp fallegu rósarunnana mína til að koma fyrir enn einni tunnunni? Mér er spurn hvort ég geti farið fram á leigu frá sveitarfélaginu fyrir plássið undir tunnurnar enda fer þetta að verða í það minnsta einn og hálfur fermetri af landi jafnvel tveir sem fer undir sorp við heimilið mitt! Maður þarf hreinlega meistaréttindi í sorpflokkun! Enn er verið að fækka um þá sorpflokka sem mega fara í þessar tunnur og samt er verið að bæta við okkur tunnu! Nú þarf ég að fara aukaferðir í gámastöðina (á bílnum með uppsafnað rusl því ekki fer ég margar ferðir á dag) með dósirnar undan kattamatnum því ekki mega þær fara með í pappa eða plast ruslið. Einnig þarf ég að fara með plastflöskur sem innihalda olíu / fitu jafnvel mjólk, rjóma, súpur og sósur því nú segja sumir að ekki megi setja fljótandi fæðu í eldhúsvaskinn eða í wc-ið því það er ekki gott fyrir lagnirnar! Samt er okkur sagt að þrífa umbúðirnar utan af þessari fitu í eldhúsvaskinum. Ekki er gott að gera það með köldu vatni því það er ekki gott fyrir lagnakerfið og það er einnig ótækt að gera það með heitu vatni því það eru ekkert allir sem eru komnir með hitaveituna í hús. Síðast en ekki síst er verið að tala um ,,Borgað þegar hent er” á næsta ári og þá á að rukka ,,tunnugjald” í stað fastra sorpgjalda. HALLÓ!! Þið dælið á okkur fleiri og fleiri tunnum og svo þurfum við að borga tunnugjald?? Ég bað aldrei um allar þessar tunnur og mér dugir bara ein, er það ekki NÓG?

Málfríður