Málefni ferðaþjónustuaðila

0
2224

Nýverið stóðu Ríki Vatnajökuls ehf. og Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu fyrir tveimur fundum um málefni ferðaþjónustu í Austur-Skaftafellssýslu. Ríki Vatnajökuls ehf. er fyrirtæki í sameiginlegri eigu ferðaþjónustufyrirtæka á Suðausturlandi en hefur notið góðs stuðnings Sveitar­félagsins Hornafjarðar til markaðssetningar og vöruþróunar í ferðaþjónustu. Ferðamálafélagið hafði um árabil, áður en Ríki Vatnajökuls var stofnað 2007, verið helsti vettvangur ferðaþjónustuaðila til að fjalla um sameiginleg málefni greinarinnar, og styðja við vöxt og viðgang hennar. Ferðamálafélagið hefur það hlutverk að tilnefna einn fulltrúa í svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs á Suður­svæði ásamt varamann og einn fulltrúa í Markaðsstofu Suðurlands. Með stofnun Ríki Vatnajökuls ehf. þar sem Sveitarfélagið Hornafjörður og ferðaþjónustufyrirtæki sneri bökum saman um að efla ferðaþjónustu í héraðinu dró úr vægi Ferðamálafélagsins.
Sveitarfélagið hefur gefið það út að það ætlaði ekki að endurnýja núverandi samning milli þess og Ríki Vatnajökuls ehf.
Á fyrrnefndum fundum kom greinilega fram að mikilvægt væri nú að blása á ný lífi í Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu til að gæta þess að hagsmunir greinarinnar séu ávallt á borðum bæjarstjórnar Hornafjarðar. Ferðaþjónustan er sú grein sem skapað hefur hvað flest ný störf innan samfélagsins og staðið undir mikilli nýfjárfestingu á sama tíma. Þess vegna er mikilvægt að hafa vettvang til að gæta að hagsmunum greinarinnar í skipulagsmálum, að stefna sveitarfélagsins í atvinnu­málum taki mið af þörfum ferða­­þjónustu­fyrirtækja í sveitar­­félaginu og að sveitarfélagið verði áfram virkt í uppbyggingu atvinnulífs – og ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.
Að sama skapi er mikilvægt að félagið gæti hagsmuna greinarinnar gagnvart almennri löggjöf ríkisvaldsins og að sú löggjöf sem nú er verið að móta, endurskoða og styrkja styðji við áframhaldandi verðmætasköpun í greininni, bæði til sjávar og sveita.
Þá var jafnframt rætt um mikilvægi þess að standa vörð um hagsmuni ferða­þjónustufyrirtækja við mótun og framkvæmd atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs. Eitt af fjórum meginhlutverkum þjóðgarðsins er að stuðla að atvinnuþróun á nærsvæði garðsins, ásamt því að tryggja vernd einstakrar náttúru, efla útivist og rannsóknir. Aukin aðsókn ferðamanna til landsins og á lendur Vatnajökulsþjóðgarðs hefur í för með sér margvísleg tækifæri og áskoranir sem mikilvægt er að nálgast sé með samvinnu atvinnulífs og þjóðgarðs, með það markmið að efla búsetuskilyrði og atvinnu á nærsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.
Ákveðið var á fundunum að setja á fót undirbúningshóp til að fjalla um og undirbúa næstu skref. Það er ljóst að samfélagið í Austur-Skaftafellssýslu stendur frammi fyrir nýjum áskorunum vegna uppbyggingar og vaxtar atvinnulífs og byggðar í héraðinu. Því fylgja ýmsar áskoranir en fleiri tækifæri.
Fyrir hönd fundarboðenda
Haukur Ingi Einarsson