Lýðræði í orði en ekki á borði

0
604

Í eftirfarandi grein ætla ég að fjalla stuttlega um afgreiðslu meirihluta bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar á beiðni okkar, andstæðinga breytinga á skipulagi í „Innbæ”, um heimild til söfnunnar undirskrifta til þess að efnt verði til íbúakosninga um skipulagsbreytingarnar. Ég mun eingöngu fjalla um þátt kjörinna fulltrúa í meðferð málsins af hálfu Sveitarfélagsins því þeirra er valdið og þeirra er ábyrgðin.
Fyrir rúmu ári hófum við andstæðingar skipulags­breytinganna andófið með formlegum aðferðum í samræmi við lög og eðlilega samskiftahætti. Við höfum leitast við að vera málefnaleg í málflutningi okkar, lagt áherslu á að færa fram rök málstaði okkar til stuðnings og höfum ætlast til hins sama af bæjaryfirvöldum.
Í lok október síðastliðinn lá fyrir að Skipulagsstofnun ríkisins heimilaði auglýsingu á nýju skipulagi og þar með samþykkti það þrátt fyrir að hafa gert 13 athugasemdir. Þegar svona var komið og eftir að hafa horfið frá því að kæra gerð skipulagsins til Kærurnefndar auðlinda- og umhverfismála, ákváðum við að óska eftir heimild bæjarstjórnarinnar til áðurnefndrar söfnunar undirskrifta eins og kveðið er á um í lögum að skuli gert. Þetta gerðum við með bréfi til forseta bæjarstjórnar 8. nóvember síðastliðinn og töldum að erindið sem ber með sér áhuga íbúa á skipulagsmálum yrði tekið fagnandi af bæjarstjórninni. Við töldum að ákvæði í Sveitarstjórnarlögum um samráð við íbúa mundi auka líkur á jákvæðum viðbrögðum og einnig áhugi fulltrúa Framsóknar á íbúalýðræði sem kemur fram í stefnuskrá B-listans fyrir síðustu kosningar til sveitarstjórnar í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Í Sveitarstjórnarlögum X. kafla: Samráð við íbúa, 102 gr. Réttur íbúa til áhrifa á stjórn sveitarfélagsins segir í fyrstu málsgrein eftirfarandi: “Sveitarstjórn skal leitast við að tryggja íbúum sveitarfélagsins og þeim sem njóta þjónustu þess möguleika til að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.“
Í stefnuskrá B-listans í kafla með yfirskriftina Skipulagsmál og lýðræði eru þessar fyrstu þrjár málsgreinar: “Íbúalýðræði hefur ekkert verið að flækjast fyrir okkur síðustu árin. Það er því mikilvægt að kjósendur vegi og meti hvort þeir vilji að vinnubrögð breytist við stjórn sveitarfélagsins. Leiðarljós okkar Framsóknarmanna í þeim efnum er betra upplýsingaflæði, meira samráð og gott viðmót í samskiptum sveitarfélags og íbúa þess”.
Þann 13. nóv. s.l. barst okkur svar bæjarstjórnarinnar við málaleitan okkar. Við urðum fyrir vonbrigðum því að ekki örlaði á jákvæðum undirtektum við áformum okkar til að koma á almennum vettvangi til skoðanaskipta um skipulagsmál í sveitarfélaginu með íbúakosningu. Í bréfinu kom fram að á fundi sínum 13. nóv. var beiðni okkar sam­þykkt með skilyrðum. Við teljum að sú gjörð bæjarstjórnarinnar að skilyrða heimildina til undirskriftasöfnunnar standist ekki lög og reglur. Í bréfi 15. nóv. til forseta bæjarstjórnar gerðum við grein fyrir þessu áliti okkar og fórum fram á að bæjarstjórnin tæki erindið fyrir að nýju og heimilaði söfnun undirskrifta án skilyrða. Í þessu sama bréfi óskuðum við eftir að fá að seinka undirskriftasöfnuninni þar til sóttvarnareglur vegna covid19 hafa verið feldar úr gildi. Eftir enn frekari bréfasamskipti um málið tókst okkur að fá afdráttarlaus svör frá bæjarstjórninni. Á fundi sínum þann 10. des. endurskoðaði bæjarstjórnin fyrri samþykkt og samþykkti heimild undirskriftasöfnunar án skilyrða en hafnaði að veita umbeðinn frest vegna covid19. Við afgreiðslu málsins lagði oddviti D-listans fram tillögu um frestun á málinu til þess að koma til móts við óskir okkar sem fulltrúi 3. framboðsins tók undir. Meirihluti bæjarstjórnar hafnaði tillögunni og þar með var ljóst að undirbúningi og framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar yrði að ljúka fyrir janúarlok til þess að teljast gild. Við afgreiðslu tillögu oddvita D-listans tók formaður bæjarráðs, oddviti B-listans í bæjarstjórn, til máls. Í máli formannsins komu fram fullyrðingar um að ómögulegt hefði reynst að eiga í viðræðum við okkur sem höfum verið í forsvari fyrir íbúa sem andvígir eru umræddum skipulagsbreytingum. Tiltók hún dæmi af fundi sem bæjarstjórnin átti með fulltrúum okkar. Á þeim fundi hafi hún fengið gusu yfir sig, eins og hún orðaði það, frá öðrum fulltrúa hópsins. Formaðurinn nafngreindi ekki fulltrúann en sennilegt er að hún hafi átt við þann sem þetta skrifar. Ekki minnist ég þess að formaðurinn eða aðrir fundarmenn hafi gert athugasemdir við málflutning minn á fundinum þar sem við skiptumst á skoðunum augliti til auglitis. Einræðan sem oddviti B-listans viðhafði með “gusugangi” úr ræðupúlti sveitarfélagsins á bæjarstjórnarfundi þann 10.des. er ekki við hæfi og ætti bæjarfulltrúinn að biðja hlutaðeigendur afsökunar á órökstuddum gífuryrðum sem hún viðhafði úr fyrrnefndu ræðupúlti við fyrsta tækifæri.
Samkvæmt lögum ber okkur sem fáum heimild til söfnunar undirskrifta skylda til að kynna ástæður og tilgang söfnunarinnar fyrir íbúum. Við núverandi sóttvarnareglur vegna covid19, sem banna allt samkomuhald og takmarka mjög öll samskipti fólks a.m.k. til 12. janúar, er nánast ómögulegt að verða við þessari skyldu um kynningu. Kynning er líka nauðsynleg til þess íbúar geti viðrað mismunandi skoðanir og umræða um þær fari fram. Þannig aukast líkur á að málefnið fái farsælan framgang.
Svona er málum fyrirkomið um þessar mundir. Vonandi er lesandinn nokkru nær um aðdraganda, framgang og stöðu áforma okkar 223 íbúa (15% kjósenda sveitarfélagsins) um að koma á íbúakosningu um nýtt skipulag sem nefndt er “þétting byggðar í Innbæ”. Það sem ræður því að áform okkar um framkvæmd íbúakosningar eru í pattstöðu er viljaleysi og neikvætt viðmót meirihluta bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Yfirskrift þessa greinarkorns reynast orð að sönnu.

Höfn í janúar 2021.
Ari Jónsson