Lífræna tunnan er ekki ruslatunna

0
1200

Í lífrænu tunnuna á EINUNGIS að fara matarleifar, bréfþurrkur, tannstönglar, eggjabakkar, te og kaffipokar og afskorin blóm.
Almennt standa íbúar sig vel í flokkuninni en undanfarið hefur borið á miklu magni af óæskilegum aukahlutum í lífrænu tunnuna í sveitarfélaginu. Hlutir á borð við plastumbúðir og raftæki sem eiga auðvitað alls ekki heima í lífrænu tunnunni hafa sést þar í.
Það er mjög mikilvægt að íbúar og rekstraraðilar sem eru með lífræna tunnu vandi sig við að flokka. Það er á ábyrgð ykkar að tryggja að einungis lífrænn úrgangur rati í lífrænu tunnuna. Í seinustu losun í sveitarfélaginu var svo mikið af aukahlutum í úrganginum að stór hluti hans endaði í urðun. Það er mjög sorglegt ef fáir aðilar, sem flokka illa, skemma fyrir heildinni, auka kostnað sem óhjákvæmilega greiðist af íbúum. Lífrænn úrgangur er ekki rusl heldur verðmætt hráefni og eigum við að temja okkur slíkt hugarfar þegar við meðhöndlum úrganginn.
Við biðlum til íbúa að sjá sóma sinn í því að flokka rétt í tunnurnar. Héðan í frá munu tunnur sem rangt er flokkað í ekki vera tæmdar og mun starfsfólk merkja tunnuna þess efnis. Íbúi verður síðan sjálfur að sjá um tæminguna. Hægt er að nýta klippikort móttökustöðvarinnar í slíka umfram losun.

Myndirnar sem hér fylgja eru teknar á Höfn á seinustu vikum, þar má sjá dæmi um óæskilega aukahluti í lífrænutunnunni.
Hafi fólk ábendingar eða spurningar varðandi flokkun úrgangs þá er velkomið að senda mér tölvupóst á netfangið anna@hornafjordur.is og mun ég svara þeim eftir bestu getu.
Gleðilegt sumar!

Anna Ragnarsdóttir Pedersen
Umhverfisfulltrúi