Lífæðin / Lifeline

0
1329

Skinney – Þinganes í samvinnu við Forlagið gefur út bókina Lífæðin / Lifeline nú á næstu dögum. Tilurð bókarinnar má rekja til 70 ára afmælisárs Skinneyjar – Þinganess árið 2016 þegar portúgalska ljósmyndarann Pepe Brix rak á fjörur þess. Pepe dvaldi hjá fyrirtækinu drjúgan hluta marsmánaðar við myndatökur á sjó og í landi. Hann sýnir mannlífið um borð í fiskiskipum og í vinnslustöðvum og hyllir fólkið sem færir aflann heim og vinnur úr honum.

Meðan á dvöl Pepe stóð kom upp sú hugmynd að gefin yrði út ljósmyndabók um starfsemi Skinneyjar – Þinganess í tilefni af 70 ára afmælisári félagsins. Stefnan var þá líka sett á að hafa inngangstexta í bókinni á íslensku og ensku, um sjávarútveg á Íslandi með áherslu á tengsl greinarinnar við vöxt og viðgang Hafnar í Hornafirði, um sögu og þróun Skinneyjar – Þinganess og um náttúrufarið sem er og verður orsakavaldur um stöðu og þróun greinarinnar til framtíðar. Arnþór Gunnarsson tók að sér textagerð og Júlían D’Arcy þýddi yfir á ensku. Eldri myndir í bókina lagði Sigurður Eymundsson til úr safni sínu.

Í meira en eina öld hefur sjósókn og vinnsla sjávarafurða verið lífæð bæja og þorpa víða um land. Í bókinni varpar Pepe ljósi á samspil tækni, manns og náttúru til sjós og lands. Bókin er tileinkuð sjómönnum og landverkafólki á Hornafirði í gegnum tíðina. Útgáfunni verður fagnað í Skreiðarskemmunni kl. 16:00 laugardaginn 10. júní. Allir eru boðnir velkomnir.