Kiwanisklúbburinn Ós vinnur fyrst og fremst fyrir börnin

0
150

Nú er vetur genginn í garð og annamesti tími í starfinu hjá Kiwanisklúbbnum Ós er fram undan. Þegar desember og jólin nálgast er komið að einni af mikilvægustu fjáröflunum hjá Ós en það er að selja jólatré. Söfnunarféð er notað til að bæta samfélagið og gera það betra fyrir börnin okkar en Kiwanishreyfingin hefur það að markmiði sínu hjálpa börnum í heimabyggð og reyndar í heiminum öllum.
Fyrir jólin seljum við jólatré, friðarkerti og jóladót í skóinn sem er nýlegt verkefni en ágóði af því mun fara í verkefni með samráði við Grunnskóla Hornafjarðar. Við þökkum þeim fyrirtækjum sem komið hafa verkefninu með auglýsingum á jólaskókassann. Jólatrén verða seld í Jólaþorpi Kiwanis sem haldið er í annað sinn og verður það nú staðsett milli Nýheima og ráðhússins. Þar verða einnig sölubásar ýmissa góðgerðarsamtaka. Þetta fyrirkomulag var fyrst reynt á síðasta ári og gekk ljómandi vel. Því vonumst við til að það gangi eins vel eins og fyrir jólin 2022.

Opnunartími Jólaþorps Kiwanis á Höfn er eftirfarandi:
Laugardaginn 9. desember frá kl. 13:00-16:00
Sunnudaginn 10. desember frá kl. 13:00-16:00
Föstudaginn 15. desember frá kl. 17:00-19:00
Laugardaginn 16. desember er opið frá kl. 13:00-16:00
Sunnudaginn 17. desember er opið frá kl. 13:00-16:00
Dagana 18. til 22. desember er opið frá kl. 17:00-19:00 og á
Þorláksmessu 23. desember frá kl. 14:00-19:00

Við viljum sérstaklega að þakka fyrirtækjunum; Mikael, Þingvaði, Flytjanda, Ajtel, Martölvunni, Hans Christensen, Nettó, Húsasmiðjunni, Skinney-Þinganesi sem og öllum klúbbfélögunum sem leggja hönd á plóg við uppsetningu Jólaþorpsins, pökkun á jólaskókössum, skreytingu jólatrjáa, styrktarauglýsingar á jólaskókössum og síðast en ekki síst þá sem tóku þátt í skógarhöggi í Hoffelli og Steinadal og skreytingu jólatrjáa til fyrirtækja. Skógræktarfélag Suðursveitar hefur haft veg og vanda að skógrækt í Steinadal og þökkum við þeim fyrir að leyfa okkur að höggva þar stafafuru. Þá má ekki heldur gleyma Þrúðmari í Miðfelli sem velur öll fallegu stór jólatrén í skógræktinni þar fyrir okkur en bæjartréð kemur úr Hallormsstaðaskógi.
Ós styrkir nú fyrir jólin um hálfa milljón gegnum Samfélagssjóð Hornafjarðar með Nettó inneignarkortum í samstarfi við Nettó. Það væri ekki væri hægt nema vegna góðvildar og hugulsemi Hornfirðinga í garð náungans. Ýmislegt annað höfum við styrkt sem ekki verður nefnt sérstaklega og á næsta ári mun Kiwanishreyfingin sérstaklega styrkja Einstök börn og stefnir Ós á að styrkja kr 3500 á hvern félaga til Einstakra barna á næsta ári. Styrkir hjá Ós er á hverju ári um milljón krónur.
Núverandi forseti er Kristjón Elvar Elvarsson og hefur hann þegar tekið inn þrjá nýja félaga á nýju starfsári sem hófst í september. Tveir af nýju félögunum eru fæddir 2001 og er mikilvægt að fá inn unga og dugmikla einstaklinga í hreyfinguna. Við vonumst fleiri bætist í hópinn á næstunni. Þá er í gangi vinna við að stofna kvennaklúbb með henni Eyrúnu Ævarsdóttir en hún er forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Eyrún hefur netfangið eyrun@kiwanis.is og fjölgunartengill hjá Ós er Sigurður Einar með netfangið seinars@kiwanis.is ef áhugi er að vera með. Fésbókarhópurinn Konur í Kiwanis Hornafirði heldur utan um áhugasamar konur hér á svæðinu.
Fjáröflun okkar heldur svo áfram á nýju ári og þegar hefur verið ákveðið að þann 9. mars verði haldin veisla sem við köllum í dag G-veisla. Þar verður boðið upp á fremur óhefðbundinn mat sem mörgum þykir þó ómótstæðilegt góðgæti. G-veislan verður auglýst þegar nær dregur.

Með Kiwaniskveðju, stjórn
Kiwanisklúbbsins Óss