Kæru íbúar sveitarfélagsins

0
599

Ég vil með eftirfarandi orðum rekja sögu áforma bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar um þéttingu byggðar í innbæ, varpa ljósi á efni málsins og á viðbrögð meirihluta bæjarstjórnar við framkomnum mótmælum.
Tvö hundruð tuttugu og þrír íbúar sveitarfélagsins hafa undirritað skjal þar sem beðið er um að fyrirhugaðar framkvæmdir verði dregnar til baka. Áformin gera ráð fyrir byggingu 5 einbýlishúsa og eins raðhúss.
Við enda Silfurbrautar skulu vera tvö einbýli, við hliðina á húsi nr. 42. þessi hús yrðu staðsett í enda bæjarins, ofan í golfvellinum og í afar viðkvæmum jarðvegi.
Fyrir aftan bílskúra við raðhús Silfurbrautar er örlítil græn tunga þar er fyrirhugað að staðsetja raðhús. Það raðhús væri í engu samræmi við þá byggð sem fyrir er, húsið kæmi fyrir framan Silfurbraut nr 31 og næði nánast niður í fjöru. Þarna er ekkert pláss og jarðvegur viðkvæmur. Uppgröftur, þungaflutningar og hæð þess húss, myndi að öllum líkindum valda skemmdum á þeim eignum sem fyrir eru. Hér viljum við sjá göngu- og hjólreiðastíga.
Við Hvannabraut skal byggja hús sem er í framhaldi af þeirri götu, það hús er fyrirhugað nánast í bakgarði þeirra húsa sem standa við Silfurbraut. Þar eins og annars staðar er jarðvegurinn afar viðkvæmur. Öll viðlagasjóðshúsin eru byggð á staurum árið 1973. Við Hvannabraut stendur gistihús, af þeim ástæðum hafa íbúar götunnar óskað eftir að bílstæðum verði fjölgað. Við styðjum þá ósk heilshugar.
Tvö einbýlishús eru fyrirhuguð í beinu framhaldi af raðhúsi við Vesturbraut, þessi hús skulu staðsett á eina túninu sem eftir er við strandlengju sveitarfélagsins og snýr að víðáttu og fegurð jöklanna, ósk okkar er að þar verði áfram útivistarsvæði fyrir alla. Svæðið verði endurbætt með hliðsjón af þörfum íbúa og gesta. Mikill fjöldi barna er í hverfinu og okkur vantar sárlega þetta útivistarsvæði. Einnig er túnið í beinu göngufæri fyrir börn leikskólans og eldri borgara eftir göngustígum og engar umferðagötur liggja að túninu. Allar rannsóknir sýna að græn svæði og víðátta auka vellíðan og stuðla að góðri heilsu manna.
Bæjaryfirvöld hyggjast virða að vettugi vilja íbúa sem kemur m.a. fram í íbúakönnun frá 2019 um að umrætt tún sé eitt besta útivistarsvæði á Höfn. Vilja s.s. eyðileggja túnið fyrir tvö einbýlishús.
Meirihluti bæjarstjórnar hefur tæpast virt okkur mótmælendur svars. Í upphafi var okkur sagt að menn hefðu ekki þurft að fara í þetta samtal við íbúana, sú fullyrðingin reyndist ekki rétt og staðfest er hjá Skipulagsstofunun ríkisins að sú tilhögun var ekki samþykkt.
Tveir fundir hafa verið haldnir með okkur, annar í hálftíma, áður en afgreiða átti málið út úr bæjarstjórn og hinn í hádegi, daginn sem íbúafundur var síðan um málið. Á íbúafundinum var í löngu máli listað upp á vegg eitthvað sem var ekki í neinu samræmi við það sem við höfðum heyrt. Við vitum í dag að það var einungis verið að setja fram það sem kæmi málinu gegnum afgreiðslu Skipulagsstofunnar. Það hefur nú tekist og vonbrigði að skipulagsyfirvöld horfa einungis til formsins. Efnisleg umfjöllun virðist ekki skipta máli.
Í upphafi þessa máls var m.a. sagt að þessar framkvæmdir væru fyrirhugaðar vegna þess að blikur væru á lofti um að draga færi úr eftirspurn eftir byggingalóðum og þess vegna ekki ástæða til þess að taka ný svæði til skipulags. Það er ekkert sem bendir til þess. Í sveitarfélaginu er hátt atvinnustig, íbúum hefur fjölgað umfram það sem áætlað hefur verið og erum við nú um 2400. Í Lóni eru að hefjast framkvæmdir sem munu skapa fjölda mörg störf og afleidd störf. Fyrirhugað er bygging hótels með 75 herbergjum, 20 einbýlishús, 2 veitingastaðir, Spa, skógrækt, gróðurhús fyrir grænmetis- og ávaxtarækt. Hestaferðir, bátaferðir og gönguferðir svo eitthvað sé nefnt. Þessar framkvæmdir munu hafa í för með sér fjölmörg störf og afleidd störf og marga íbúa tengdum starfsmönnum. Hægt er að hlusta á viðtal við Jakop Frímann Magnússon sem tekið var nú 22. oktober 2020 í þættinum Bakpokinn inn á rúv.
Því hefur einnig verið haldið fram að þessar lóðir séu ódýr kostur, Við íbúar hverfisins höfum ítrekað beðið um útreikninga á þeirri fullyrðingu. Við höfum engin svör fengið.
Við höfum bent á að allar líkur séu á því, að lóðirnar verði dýrar bæði fyrir þá sem myndu byggja á þeim og einnig fyrir sveitarfélagið. Mjög vandasamt yrði að grunda hús á lóðunum vegna þess hversu blautur og kvikur jarðvegurinn er á svæðinu. Verulegar líkur eru á að rask á lóðunum myndi valda tjóni á húsum sem nú þegar standa á lóðum sem næst standa umræddum lóðum. Má í þessu sambandi vísa í minnisblað verkfræðings hjá Verkfræðistofunni Eflu þar sem fram kemur að ekkert vit er að fara í þessar framkvæmdir nema að athuguðu máli vegna jarðvegs þessa svæðis. Við þessu skal brugðist með því að bæta inn kvöðum á því hvernig væntanlegir húsbyggjendur byggi og að kostnaður jarðvegskannana lendi einnig á þeim. Það er ljóst að því fylgir mikill auka kostnaður. Við höfum síðan spurt hvort sveitarfélagið bæti hugsanlegan skaða á þeim eignum sem fyrir eru og höfum fengið það svar, að svo sé ekki, þrátt fyrir að í lögum sé ábyrgð sveitarfélagsins ótvíræð.
Við höfum líka bent á að okkur finnist furðulegt að fyrirhugað sé að fara í rótgróið hverfi fyrir nokkur hús með öllu því raski sem myndi fylgja þessum framkvæmdum, mikill uppgröftur og þungaflutningar. Bæjaryfirvöld hafa lýst yfir að sett verði mörk á byggingatíma umræddra húsa en slík mörk minnka í engu raskið og líklegar skemmdir. Nú eru menn farnir að tala um að bjóða út lóðir í litlum skömmtum. Er þá verið að tala um að bjóða út tvær eða fleiri lóðir í einu ? Hvað er þá með tímamörkin ? Það síðasta sem við heyrum nú ítrekað frá meirihluta bæjarstjórnar er að enginn sé að fara að byggja á þessum lóðum, til hvers er þá verið að reka þetta mál áfram ?
Að hér sé verið að tala um þéttingu byggðar vekur líka furðu því hér er fyrirhugað að byggja í enda bæjarins og með því er verið að færa byggð lengra frá allri þjónustu og inn að svæði golfvallarins. Golfklúbbur Hornafjarðar hefur sent frá sér greinagerð þar sem þessum framkvæmdum er mótmælt því ekkert pláss er fyrir þau þrjú hús sem ráðgerð eru og golfvöllurinn var skipulagður án þeirra. Bæjaryfirvöld hafa brugðist við ósk golfklúbbsins með því að taka út eitt þessara húsa, húsið við hlið Silfurbrautar nr 39, ósk golfklúbbsins nær til þriggja innstu húsanna.
Vegna alls þess sem rakið hefur verið hér, er óskiljanlegt að þetta mál er rekið áfram af miklum hraða og ákafa af hálfu meirihluta bæjarstjórnar. Það eru engin rök fyrir þessari vegferð og hún er í andstöðu við vilja mikils meirihluta íbúa hverfisins. það er ekki spurning að öll áhersla ætti að vera á að skipuleggja stór svæði fyrir nýja íbúabyggð.
Nú, á þessum fordæmalausu tímum eru sveitarfélög landsins með áherslu á að hrinda í gang stórum verkefnum til að skapa störf.
Sveitarfélagið Hornafjörður er með þá opinberu yfirlýsingu að vera heilsueflandi samfélag. Einnig var nýlega skrifað undir samning við Sameinuðu þjóðirnar um barnvænt samfélag. Okkar áhersla á að vera að vernda þessi litlu grænu svæði sem eftir eru í hverfinu, fyrir börn og fullorðna til að njóta. Fyrir kosningar var það einnig yfirlýsing núverandi forseta bæjarstjórnar og eins fulltrúa framsóknarmanna í bæjarstjórn að vanda til verka hvað það varðar að eiga samtal við íbúa sveitarfélagsins og að vernda grænu svæðin. Ég hef alls ekki mætt þeirri framkomu eða áherslu hvað varðar þetta mál. Mér finnst málarekstur meirihluta bæjarstjórnar einkennast af útúrsnúningum og niðurlægjandi hæðni.
Í dag stendur málið þannig að fyrirliggjandi er breytt aðalskipulag og tilheyrandi breytt deiliskipulag. Aðdragandinn að þessu var sá að Framsóknarflokkurinn með fjögur atkvæði samþykkti að halda áfram með fyrirhugaðar framkvæmdir. Sjálfstæðisflokkurinn með tvö atkvæði sat hjá og 3. Framboðið með eitt atkvæði sagði nei við fyrirhuguðum framkvæmdum. Hægt er að horfa á þennan Bæjarstjórnarfund og sjá hvernig menn gera grein fyrir afstöðu sinni inná youtube.
Bestu kveðjur og er einlæg ósk mín að sem flestir láti sig málið varða.

Sveinbjörg Jónsdóttir íbúi í innbænum og sveitarfélaginu.