Íbúalýðræði

0
899

Í dag þykir sjálfsagt að valdhafar boði íbúalýðræði og bjóði almenningi til samtals með fundum, bæði í raunheimum og á rafrænum fundum þar sem íbúar fá að segja sína skoðun á málefnum dagsins og hafa áhrif á gang mála í sínu nær samfélagi. Tækninni fleygir fram og því verður auðveldara að fá fram vilja almennings í hinum ýmsu málum sem snúa að þeirra daglega lífi 

Þetta er fyrirbæri sem ég er ákaflega hrifin af.  Ástæðan fyrir því er sú, að ég veit að ég er ekki með bestu úrlausnina í öllum málum og á það nú við um fleiri. 

Þess vegna eru meiri líkur á skynsamlegri niðurstöðu ef fleiri koma að borðinu þegar tekin er ákvörðun. Það er líka auðveldara að rökstyðja framkvæmdir þar sem íbúar hafa fengið að segja sína skoðun á málinu. Ég held að íbúar sem fá að ráða einhverju um hverfið sitt, leiksvæði, göngustíga eða hvað sem gæti bætt nærumhverfið, séu sáttari við breytingarnar ef þau eru höfð með í ráðum.  

Núverandi meirihluti í bæjarstjórn hefur verið duglegur að boða íbúalýðræði á þessu kjörtímabili. Það er ekki sjálfgefið að stjórnvöld útdeili völdum og treysti íbúum fyrir ákvörðunum verkefna. Það hafa verið  fundir um ýmis málefni þar sem íbúar sveitarfélagsins hafa fengið að segja sína skoðun á málefnum dagsins. Íbúar hafa verið spurðir um þeirra skoðanir á fjölmörgum málefnum t.d. skipulags málum , nýjum íbúðahverfum, útivistarsvæðum og hvar íbúar vilji sjá bæjargarð/útivistargarð fyrir bæjarbúa svo eitthvað sé nefnt. 

Og þá komum við að kjarna málsins, til þess að þetta geti orðið að raunverulegu íbúa lýðræði þá þarf fara eftir þeim  niðurstöðum sem flestir velja. 

Því miður hafa engar af hugmyndum íbúa sem tóku þátt í þessum verkefnum meirihlutans, orðið að veruleika. Hvort sem að íbúar hafa valið nýtt íbúðahverfi , bent á leiksvæði í sínu hverfi eða bæjargarðurinn sem fékk langflest atkvæði á miðsvæðinu í  verkefninu um Norræna sjálfbæra bæi þar sem íbúar fengu að velja sína „staði“ í bænum til uppbyggingar. 

 Á sameiginlegum framboðsfundi í Nýheimum, nýverið, gáfu framsóknarmenn það út að ekki yrði útbúinn bæjargarður á miðsvæðinu,  þar sem Humarhátíðin hefur verið haldi síðustu ár, við miklar vinsældir bæjarbúa. 

Frekar ætti að styrkja götumyndina með því að byggja 2 hæða hús á lóð 38 við Hafnarbraut sem mun útiloka bæjargarð á þessum stað og að öllum líkindum varpa skugga á sundlaugina á vorin og haustin. 

Það eina sem klikkaði hjá meirihluta Framsóknarflokksins var að gera það sem felst í  íbúalýðræðinu, að fara eftir því sem fólkið valdi.  Annars heitir það ekki lýðræði.

Páll Róbert Matthíasson  
14. Sæti  lista Sjálfstæðisflokksins