Í þágu samfélagsins

0
257

Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnadeildin Framtíðin hafa unnið að undirbúningi nýs húss fyrir félögin. Hugmyndin að nýju húsnæði er þó ekki ný af nálinni en árið 2018 fór af stað greiningarvinna á vegum viðbragðsaðila á húsnæðisþörf. Verkefnið sofnaði svo í Covid en síðastliðið ár færðist kraftur í verkefnið og niðurstöðu þeirrar vinnu má sjá á meðfylgjandi mynd. Við erum afar stolt af vinnunni og ótrúlega ánægð með útkomuna. Frumherji mun flytja sína starfsemi með okkur og opnar fullbúna skoðunarstöð og að auki munu Sjúkraflutningar flytja sína starfsemi með okkur í húsnæðið ásamt Rauða Kross Íslands og svo er stutt yfir til Slökkviliðs Hornafjarðar, sem býr til mikið betri samstarfsvettvang fyrir viðbragðsaðila á Höfn. En af hverju erum við að standa í þessu? Fyrst og fremst er núverandi húsnæði eininganna barn síns tíma og stendur, að okkar mati, í vegi fyrir eðlilegri framþróun eininganna. Þar að auki vissum við frá vinnunni síðan 2018 að sjúkraflutningar væru í húsnæðisþörf og sömuleiðis Rauði Krossinn og var það eindreginn vilji okkar að draga saman viðbragðsaðila í eitt húsnæði. Næsti fasi er fjármögnun og með 200 milljóna króna styrk frá Skinney[1]Þinganesi hlaut verkefnið vængi og var hugmyndin að fara með það á flug núna um Sjómannadagshelgina! Þess vegna vilja Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnadeildin Framtíðin bjóða öllum Hornfirðingum til að mæta á staðinn með skóflurnar sínar og saman tökum við fyrstu skóflustunguna að húsinu, á lóðunum okkar við Sæbraut (norðan við Gáruna og slökkvistöðina) laugardaginn 3. júní klukkan 11:00 og í kjölfarið verður opið hús í húsi eininganna þar sem boðið verður upp á léttar veitingar.

F.h Björgunarfélags Hornafjarðar og Slysavarnadeildarinnar Framtíðin

Finnur Smári Torfason Erla Berglind Antonsdóttir