Er eitthvað af frétta af Menningarmiðstöðinni? Þetta er spurning sem við fáum oft en fátt er um svör. Ef undanskilið er Listasafn Svavars Guðnasonar berast litlar fréttir af starfseminni þar.
En nú eru komnar fréttir sem við teljum að íbúar Hornafjarðar eigi rétt á að vita. Búið er að þvinga Auði Mikaelsdóttur, safnvörð í Svavarssafni, til uppsagnar með vægast sagt vafasömum hætti. Nokkrum dögum áður en þrír mánuðir (lögbundinn uppsagnarfrestur) voru til þess að hún myndi snúa aftur úr fæðingarorlofi barst henni bréf þess efnis að búið væri að breyta vinnutíma hennar þannig að eftirleiðis ætti hún að vinna sem yfirseta á Svavarssafni frá kl. 15-17 á veturna og til kl. 18 á sumrin. Þetta væri ófrávíkjanleg krafa og ekki hefði fengist fjárveiting fyrir auknu stöðugildi. Auður er með tvö börn undir 3 ára aldri í heimili og leikskólinn lokar kl.16 svo að uppsögn af hennar hálfu var þannig knúin fram.
Auður Mikaelsdóttir, sem er með MA próf í listfræði, auk MBA prófs, hefur staðið sig svo frábærlega í starfi sínu á Svavarssafni að eftir því hefur verið tekið í safna- og listheiminum. Hún hefur átt gjöfult samstarf við nafntogaða listamenn og stuðlað að uppsetningu sýninga sem geta talist litlu listasafni á landsbyggðinni til framdráttar. Með faglegum áherslum og persónulegum metnaði hefur henni tekist að auka sýnileika safnsins og gera eftirsóknarvert fyrir myndlistarmenn.
Sé það rétt að ekki hafi fengist fjárveiting til að borga, t.d. skólanema, fyrir yfirsetu 2 tíma á dag á veturna, er það stórfurðulegt. Og varla þarf aukafjárveitingu til þar sem Menningarmiðstöðin hlýtur að hafa borð fyrir báru þar sem ráðnir hafa verið inn ódýrari starfsmenn fyrir þá sem hafa hætt á undanförnum mánuðum. Í starf skjalavarðar (sem ekki var auglýst) var ráðinn ungur starfsmaður með BA próf og er því á lægri launum en fyrrverandi skjalavörður. Bókavörður var ráðinn í hlutastarf, svo þar sparast líka fé.
Við leyfum okkur að efast um að nokkuð annað listasafn á Íslandi eða erlendis krefjist þess að listfræðimenntaður safnvörður starfi sem yfirseta á því safni sem viðkomandi stýrir. Það er deginum ljósara að á bak við þessa ráðstöfum liggur óvild og metnaðarleysi. Á Menningarmiðstöðinni hefur lengi ríkt þvingað andrúmsloft, sem einkennst hefur af tortryggni og tómlæti og öll gagnrýni verið eitur í beinum stjórnenda, það hafa greinarhöfundar bæði reynt. Þá hefur verið óskýrt hvernig starfseminni skuli háttað og illa séð þegar starfsmenn hafa sýnt of mikinn metnað og frumkvæði í sínum störfum. Fyrrverandi bókavörður, Gísli Magnússon, hraktist úr starfi vegna þessa.
Við teljum að bæjarbúar eigi rétt á að vita af þessum málum, líkt og þeir eiga rétt á ríkulegu menningarlífi. Spyrja má: Hver er stefna Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar í menningarmálum? Hver er sýn núverandi stjórnenda á framtíðina í þessum efnum.
Það er gríðarlegur missir af Auði Mikaelsdóttur úr starfi sínu í Listasafni Svavars Guðnasonar. Skömm þeirra sem um þetta véluðu er mikil.
Því má bæta við að nú hefur starf safnvarðar verið auglýst en í auglýsingunni hefur gleymst að taka fram að viðkomandi eigi að starfa sem yfirseta á sýningum með ósveigjanlegan vinnutíma.
Soffía Auður Birgisdóttir
Hugvísindamaður á Rannsóknasetri H.Í. á Hornafirði
Hlynur Pálmason
Kvikmyndagerðarmaður á Hornafirði.