Kæri ferðaþjónustuaðili í Sveitarfélaginu Hornafirði
Nú þegar óvissan er mikil fyrir rekstraraðila í ferðaþjónustu langar stjórn Ferðamálafélags Austur-Skaftafellssýslu (FASK) að boða til vinnufundar í byrjun október. Vinnufundinum er ætlað að skila hugmyndum og tillögum að úrræðum/lausnum fyrir ferðaþjónustuaðila. Hvað getum við gert sjálf sem atvinnugrein? Geta opinberir aðilar gert eitthvað til að aðstoða fyrirtæki í gegnum þá erfiðleika sem framundan eru?
Í aðdraganda að vinnufundinum munu FASK og Nýheimar Þekkingarsetur, með stuðningi frá Sveitarfélaginu Hornafirði standa fyrir könnun meðal ferðaþjónustuaðila á svæðinu sem ætlað er að varpa ljósi á stöðuna núna sem og á komandi misserum. Niðurstöður könnunarinnar verða notaðar sem innlegg í umræður og vinnu á vinnufundinum 8. október n.k
Til að niðurstöðurnar verði sem áreiðanlegastar viljum við biðja ferðaþjónustuaðila um að taka þátt í könnuninni sem fer fram með rafrænum hætti og mæta í kjölfarið á vinnufundinn og taka þátt í að móta framtíð ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu okkar. Þess ber þó að geta að við hvetjum alla ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu til þess að svara könnuninni hvort sem viðkomandi kemur á vinnufundinn eða ekki.
Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu (FASK) eru hagsmunasamtök fyrir ferðaþjónustuaðila í Sveitarfélaginu Hornafirði og hefur félagið verið til um árabil en var endurvakið síðastliðið ár.
Í september var ný stjórn kosin:
Haukur Ingi Einarsson, Glacier Adventure formaður
Laufey Guðmundsdóttir, Glacier Journey ritari
Bergþóra Ágústsdóttir, Pakkhúsið gjaldkeri
Ágúst Elvarsson, Jökulsárlón meðstjórnandi
Matthildur Þorsteinsdóttir, Öræfaferðir meðstjórnandi.
Anna María Kristjánsdóttir, South East, varamaður
Þeir sem geta orðið aðilar að ferðamálafélaginu eru einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir með starfsstöð eða aðsetur í Austur-Skaftafellssýslu.
Haukur Ingi Einarsson